Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að móta tillögur um eflingu fjarheilbrigðisþjónustu, skipulag, framkvæmd og áframhaldandi uppbyggingu á því sviði hefur skilað ráðherra skýrslu með tillögum sínum. Hópurinn gerir meðal annars tillögur að nokkrum þróunarverkefnum sem ráðist verði í á næstu tveimur til þremur árum.
Sigríður Jakobínudóttir, formaður starfshópsins, ásamt Sigurði E. Sigurðssyni og Jóni Steinari Jónssyni sem meðal annarra áttu þar sæti, kynntu Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra helstu niðurstöður og tillögur starfshópsins á fundi í velferðarráðuneytinu í gær. Í umræðum á fundinum var meðal annars rætt um að líta beri á fjarheilbrigðisþjónustu sem leið til að efla og bæta þá þjónustu sem þegar er fyrir hendi. Hún komi ekki í stað þjónustu sem þegar er veitt, heldur sé viðbót og stuðningur: „Þessi skýrsla er gott veganesti inn í framtíðina en hún er líka góð leiðsögn og stuðningur við frumkvöðlastarf sem þegar er unnið að víðsvegar um landið. Við eigum víða eldhuga sem við eigum að styðja og hvetja til dáða og þá er gott að hafa góða umgjörð eins og drög hafa verið lögð að með vinnu starfshópsins“ sagði Svandís Svavarsdóttir meðal annars þegar hún tók við skýrslu starfshópsins.
Í skýrslunni er fjallað um mikilvægi þess að stjórnvöld hafi stefnu á þeim sviðum sem snúa að fjarheilbrigðisþjónustu og veitingu hennar, þannig að framkvæmdin verði möguleg á landsvísu. Huga þurfi að öllum lögum og reglum sem snúa að heilbrigðisþjónustu í þessu samhengi, t.d. varðandi persónuvernd, gæðakröfur og réttindi sjúklinga og margt fleira. Fjallað er um ýmsa möguleika sem geta falist í fjarheilbrigðisþjónustu, hvernig hún gerir m.a. kleift að nýta betur þann mannauð sem heilbrigðisstofnanir búa yfir, hvernig unnt sé að gera þjónustu aðgengilega óháð búsetu og hvernig fagfólk getur öðlast greiðari aðgang að faglegum stuðningi en áður.
Starfshópurinn leggur fyrir heilbrigðisráðherra fjórar tillögur sem lúta að stefnu, umgjörð og innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu. Þá gerir hópurinn að tillögu sinni að ráðist verði í nokkur þróunarverkefni á næstu tveimur til þremur árum. Eitt þeirra snýr að útfærslu verklags við almenna umgjörð fjarheilbrigðisþjónustu á landsvísu svo að tryggt sé að farið sé að lögum og settum leiðbeiningum. Þá eru verkefni sem annars vegar snúa að þjónustu sérfræðinga við sjúklinga og hins vegar að miðlun ráðgjafar milli fagfólks og stofnana. Markmiðið er að allar heilbrigðisstofnanir taki virkan þátt í að minnsta kosti einu af eftirtöldum verkefnum.
1) Þróun samskiptalíkans í fjarheilbrigðisþjónustu – umgjörð og verklagi.
2) Fjarheilbrigðisgöngudeild innkirtlalækninga á Landspítala.
3) Fjargeðheilbrigðisþjónustu heilbrigðisstofnana.
4) Fjarheilbrigðisþjónustu fagfólks við sjúklinga í heimahúsum.
5) Líflínuverkefni sem er heilbrigðisþjónusta við skip á hafi úti og afskekktari byggðir.
Skýrsluna má lesa hér.
Sæbjörg
bb@bb.is