Uppskrift vikunnar

Inga Hlín og Óskar

Að þessu sinni eru það Inga Hlín Valdimarsdóttir og Óskar Leifur Arnarsson, staðarhaldarar á Minjasafninu að Hnjóti í Patreksfirði, sem eiga uppskrift vikunnar.

Inga Hlín segir að henni finnist skondið að verða fyrir valinu að gefa uppskrift vikunnar þar sem hún fer ekki oft eftir þeim sjálf. „Það er svolítið flókið mál að biðja okkur Óskar um uppskriftir því við erum líklega heimsins mestu slumparar og náum aldrei að gera sama réttinn alveg eins, því það sem endar í pottunum hjá okkur er yfirleitt svona það sem finnst í skápunum og svo er misjafnt eftir stemmingu hvernig við kryddum það.“ segir Inga Hlín.

Inga Hlín segir að fiskur sé oft á boðstólnum eftir að þau hafi flutt vestur. „Eftir að við fluttum vestur fyrir rúmum þremur árum hefur fiskur verið algengur matur á okkar borðum, enda auðvelt að nálgast, fljótlegt, hollt og gott. Það er tildæmis bráðsniðugt að eiga nokkra pakka af silungi í frystinum. Hann er enga stund að þiðna og er sannkallaður skyndibiti.“ segir Inga Hlín.

Þeim Ingu Hlín og Óskari fannst erfitt að gera upp á milli uppskrifta og gefa því upp þrjár útgáfur.

Ofnsteiktur silungur á þrenna vegu.
Fyrir 3-4.
2-3 flök af silungi (frá Tungu eða Vatnsfirði) sett í ofnfast mót.
Nr. 1
Salt, pipar og þurrkað dill
Stráð yfir fiskinn og hann bakaður við 180°C í 15 mínútur
Berið fram með soðnu byggi, bökuðu rótargrænmeti, fersku salati og jógúrtsósu
Jógúrtsósa:
1 dolla Grísk jógúrt
1-2 hvítlauksrif
Safi úr ½ sítrónu
Salt og pipar
Nr. 2
1 tsk tom yum paste
2 tsk sesamolía
1 msk soya sósa
Nokkrar skvettur fiskisósa
Nokkrar skvettur worcestershiresósa
Blandað saman og helt yfir fiskinn og hann bakaður við 180°C í 15 mínútur
Berið fram með soðnum hrísgrjónum og steiktu grænmeti
Nr. 3
Handfylli sólþurrkaðir tómatar
Handfylli svartar ólífur
Handfylli möndlur
1-2 Skallottulaukar
Fetaostur eftir smekk
Salt og pipar
Oregano
Tómatar, ólífur, möndlur og laukur saxað smátt, blandað saman við ostinn og kryddin og dreift yfir fiskinn. Bakað við 180°C í 15 mínútur.
Berið fram með kartöflum og góðu salati.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA