„Það er mikil jákvæðni í loftinu“

Framkvæmdir á vegum Bolungarvíkur við nýjan leikskóla eru í fullum gangi og mun nýbyggingin og endurbætur á leikskólanum við Glaðheima verða tekin í notkun vorið 2020. Þá mun aðstaðan batna verulega samhliða því að fjöldi dagvistunarplássa mun aukast.

Bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ segir að okkur muni fjölga á Vestfjörðum og bæjarstjórinn í Bolungarvík ásamt sínu liði er farinn að undirbúa þessa fjölgun. Enda er Ástarvikan í algleymingi núna í Víkinni svo aldrei að vita hvað gerist á nýju ári. BB hitti Jón Pál Hreinsson í ráðhúsinu í Bolungarvík til að vita hvernig gengi að útrýma kerfli í bæjarfélaginu og af hverju bílhræin frá bænum hefðu endað í Hnífsdal. En það er reyndar lygi því bílhræin áttu ekkert að fara þangað heldur frekar í Engidal og blaðamann langaði miklu meira að heyra um allar þær framkvæmdir sem eru í gangi úti í Vík.

Þar má fyrst telja byggingu nýs leikskólahúsnæðis. Undirbúningur þess hefur mögulega ekki verið alveg átakalaus en brýnt þótti að leysa úr húsnæðisvandræðum stofnunarinnar sem hefur verið hýst á tveimur stöðum undanfarin ár. Annað húsnæðið var sérstaklega byggt sem leikskóli, hitt var gamalt raðhús í hinum enda bæjarins sem aðlagað var að starfsseminni. En nú verður brátt öldin önnur, eða allavega áratugurinn því árið 2020 á þetta glæsilega 250 milljón króna verkefni að vera komið í gagnið, geta tekið á móti börnum frá 12 mánaða aldri og svara nútíma kröfum um leikskólahúsnæði.

„Við erum að horfa til framtíðar,“ segir bæjarstjórinn fagureygði hann Jón Páll. „Þetta er stór framkvæmd og við erum fyrst og fremst að gera bæinn okkar tilbúinn fyrir þann vöxt sem við sjáum fram á að muni koma. Það er fyrir það fyrsta mikil vöntun á húsnæðismarkaði, það var til dæmis bara einn hérna rétt áðan að spyrja eftir húsi til sölu og vildi kaupa strax,“ segir Jón Páll og hlær létt og bjartsýnt.

Nýr körfuboltavöllur við Grunnskólann er verkefni unnið af Heilsubænum í Bolungarvík með stuðningi fjölmargra aðila, þ.m.t. fjárstuðningi bæjarfélagsins.
Einkaaðilar eru standsetja húsnæðið að Aðalstræti 13, en það húsnæði hefur staðið autt um nokkurt skeið. Verið er að innrétta þrjár íbúðir og nokkurn fjölda herbergja til útleigu.
Verið er að endurnýja Ráðhússalinn í Ráðhúsi Bolungarvíkur. Verið er að stækka glugga og endurnýja innvolsið og verður þar með til salur með stórfenglegt útsýni út á Djúpið.
Einkaaðilar eru að innrétta 6 nýjar íbúðir að Aðalstræti 19, þar sem skrifstofur EG voru á sýnum tíma. Auk þess er verið að endurnýja og stækka verslunarrými á glæsilegan hátt.

„Við viljum vera með góðan leikskóla á einum stað sem tekur við fleiri börnum en við erum að gera í dag. Við höfum svo miklar væntingar til þess að ríkið komi til móts við sveitarfélög í landinu og geri foreldrum kleyft að vera hjá börnunum sínum til 12 mánaða aldurs og við getum þá tekið við í beinu framhaldi. Í dag nær fæðingarorlofið til 9 mánaða aldurs og við erum að taka inn 18 mánaða börn á leikskóla sem er endalaust vesen fyrir foreldra. Og bara vond þjónusta við barnafólk í samfélaginu. Við viljum laga það,“ segir bæjarstjórinn og fjögurra barna faðirinn með þunga. „Þegar leikskólinn verður tilbúinn árið 2020 þá verðum við tilbúin að taka inn börn frá 12 mánaða aldri.“

Hann segir jafnframt að þessi samfella þurfi að vera til staðar því jafnvel þó hann hafi kynnst góðri þjónustu dagmæðra, þá virki það kerfi ekki sem skyldi og sé þar að auki ótrygg atvinna, vegna þess að stundum fæðist mörg börn og stundum færri. „Þetta er ekki sjálfbært kerfi og ég held að þetta sé ekki kerfi sem við ættum að byggja á í samfélagi eins og hér,“ bætir Jón Páll við.

Spjallið berst víða um bæinn og almennan uppgang á Vestfjörðum og Jón Páll segir að leikskólaframkvæmdirnar orsakist vegna þess að bæjaryfirvöld finni mikið fyrir vöntun á almennu íbúðarhúsnæði og bæjaryfirvöld vilji vera tilbúin til að taka á móti þegar þeirri vöntun hefur verið svarað. „Það sem ég sé sem eina af samkeppnisforsendum Bolungarvíkur hvað varðar húsnæðismarkaðinn, er að hér eru gömul skrifstofuhúsnæði sem aðilar frá Suðurlandinu hafa keypt og eru að innrétta sem íbúðir. Svo er gamalt gistiheimili við sömu götu sem einnig er verið að taka í gegn, gera snyrtilegt og gera íbúðir þannig að í raun eru tvær byggingar við þessa aðalgötu sem stóðu auðar en er verið að breyta í íbúðir. Og við höfum tækifæri hérna í Bolungarvík til þess að gera þetta við fleiri hús,“ segir Jón Páll.

„Það sem sveitarfélagið sér síðan í framhaldinu og það sem við erum byrjuð á að gera er að taka húsin okkar í gegn og snyrta umhverfið en við höfum verið í miklu umhverfisátaki. Svo eru aðrar framkvæmdir í samræmi við þá fjölgun íbúa sem við eigum von á. Við settum til dæmis niður ærslabelg í fyrra og ég skammast mín ekkert fyrir að segja það við stálum þeirri frábæru hugmynd frá Flateyri. Við sáum bara hvað það var vel heppnað og við tókum símtalið og stálum hugmyndinni. Svo vorum við að setja upp nýjan körfuboltavöll sem er mjög vel heppnaður. Þannig að við höfum verið að auka afþreyingu í kringum svæðið við sundlaugina og opnuðum líka nýtt þjónustuhús við tjaldsvæðið í vor til að auka þjónustuna þar og það margfaldaðist aðsóknin í tjaldsvæðið í sumar.“

Bolungarvík er greinilega í sókn og það dylst engum sem þangað kemur að þar er alveg prýðilegt að vera. Jón Páll sagði enn fremur að þarna væri í raun meiri uppbygging í gangi heldur en hefði verið í mjög langan tíma og það væri birtingarmynd þeirra breytinga sem væru í gangi. Samfélagið hefði áður verið að dragast hægt og bítandi saman en nú væri þróunin á hinn veginn, það væri smá saman að stækka og þess vegna væri allt að fara af stað.

„Leikskólinn er stærsta framkvæmd er stærsta framkvæmd sem bærinn hefur farið í í mörg ár, áratugi jafnvel og við viljum þjónusta barnafólk,“ segir Jón Páll að lokum og bætir við: „Það er mikil jákvæðni í loftinu.“

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA