Sýning Jean Larson í Safnahúsinu á Ísafirði

Innblástur fyrir þessa sýningu fékk Jean frá litlu húsi á Flateyri sem hún er að gera upp sem vinnustofu.

Bandaríska listakonan Jean Larson opnar áhugaverða sýningu í sal Listasafn Ísafjarðar í Safnahúsinu á Ísafirði laugardaginn 8. september kl. 14. Verkin sýna náttúruna og hið manngerða umhverfi í nýju ljósi og hefur Jean gefið sýningunni heitið FÖNSUN. Hún segir að eitt það mest gefandi við að starfa sem listamaður sé að uppgötva óvænta fegurð á ólíklegustu stöðum. Listin sé svo oft spurning um sjónarhorn og hvernig augað skynji hið hversdagslega í umhverfinu. Að hennar sögn er innblásturinn að þessu verkefni mynstur og áferð löngu yfirgefinna bygginga sem grotna smám saman niður þar þær sameinast jörðinni að nýju. Hrundir veggir, mygluskellur, skærir litir ryðgaðs járns og skúptúrar yfirgefinna hluta sýna hvernig listin er sköpuð af náttúrunni sjálfri.

Jean Larson er fædd í Ishpeming í norðurhluta Michigan-fylkis í Bandaríkjunum árið 1955 og ólst upp í Traverse City við strönd Michigan-vatns. Hún hóf ung að mála undir áhrifum af náttúrunni og umhverfi sínu og kom sér upp vinnustofu í Traverse City þar sem hún vann til ársins 1984 er hún flutti til Boston í þeim tilgangi að auka sýnileika sinn í listheiminum. Á næstu fimm árum hlutu verk Jean mikla viðurkenningu heima sem heiman og málverk hennar má nú finna í mörgum einkasöfnum í Norður-Ameríku, Evrópu, Asíu og Ástralíu. Gallerí víðsvegar í Bandaríkjunum kynna verk hennar. Árið 1992 yfirgaf Jean Bandaríkin og ferðaðist um Evrópu og settist að í litlu þorpi í Suður-Frakklandi þar sem náttúran veitti henni enn á ný innblástur til listsköpunar. Árið 2010 dvaldi hún á Íslandi þar sem hún fór að nota ljósmyndun til að dýpka túlkun sína á þeim stað þar sem náttúran og hinn manngerði heimur tvinnast saman og blandast. Næst lá leið hennar til lýðveldisins Kongó í Afríku þar sem fólkið, sérstaklega börnin, veittu henni innblástur til listsköpunar. Núna dvelst hún til skiptis í norðurhluta Michigan, New York og á Flateyri þar sem hún hefur komið sér upp vinnustofu.

Gunnar

DEILA