Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt að fara þess á leit við Vegagerð ríkisins að svonefnd R leið verði tekin til skoðunar. Þetta kemur fram í blaðinu Vestfirðir. Sú leið er sett fram í skýrslu norska ráðgjafafyrirtækisins Multiconsult og er þverun Þorskafjarðar með hábrú utarlega í firðinum yfir á Reykjanesi við Hamarland. Auk þess hefur sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkt að fresta því að auglýsa breytingar á aðalskipulagi hreppsins varðandi svokallaða Þ-H leiðar sem samþykkt hafði verið áður af hreppnum og Skipulagsstofnun.
Segir í frétt Vestfjarða að þetta muni hafa í för með sér frekari frestun á að framkvæmdir hefjist. Haft er eftir starfandi oddvita, Ingimari Ingimarssyni, að könnunarvinnu ljúki í nóvember næstkomandi og í kjölfarið geti sveitarstjórn klárað afgreiðslu málsins. Auk þess er haft eftir Ingimari að núverandi sveitarstjórn hafi fulla heimild til að fella fyrri ákvörðun sveitarstjórnar um málið. Segir hann í samtali við Vestfirði að enginn kostur hafi verið útilokaður sem stendur.
Í frétt Vestfjarða kemur fram að á fundi sveitarstjórnar þann 12. júlí síðastliðinn hafi erindi frá íbúum Árbæjar og Staðar verið kynnt þar sem athygli var vakin á skemmdum á landi sex jarða sem búskapur er stundaður á, verði R-leiðin farin. Auk þess sem farið yrði yfir ósnortið land og varphólma með friðlýstu æðarvarpi. Bent var á í því erindi að umrætt landsvæði hafi ekki minna verndargildi en Þ-H leiðin. Á fyrrnefndum fundi bókaði sveitarstjórn að tekið yrði tillit til þessara sjónarmiða ef leið R yrði fyrir valinu.
Aron Ingi
aron@bb.is