Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að hefja heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Þann 14. ágúst síðastliðinn var haldinn upphafsfundur vegna endurskoðunar laganna en til hans var boðið félagasamtökum, framkvæmdaraðilum, sveitarfélögum, stofnunum, háskólafólki og öðrum hagsmunaaðilum. Fundurinn var með þjóðfundarsniði þar sem leitað var eftir sjónarmiðum fundargesta vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar.
Á fundinum var leitast við að svara eftirfarandi grundvallarspurningum varðandi mat á umhverfisáhrifum:
Með hvaða hætti er hægt að tryggja sem best lýðræðislega aðkomu almennings, félagasamtaka og haghafa að ferli við mat á umhverfisáhrifum?
Með hvaða hætti er hægt að auka skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum?
Hugmyndir og tillögur sem fram komu á fundinum verða nýttar við vinnu við endurskoðun laganna. Skipaður verður starfshópur til að vinna að framangreindu verkefni en jafnframt verður unnin greining á gildandi löggjöf og ferli mats á umhverfisáhrifum hér á landi og í nágrannalöndunum.
Til að tryggja aðkomu sem flestra að heildarendurskoðun laganna og að athugasemdir komi fram í upphafi vinnunnar er óskað eftir athugasemdum eða hugmyndum almennings og annarra haghafa í tengslum við endurskoðun laganna.
Athugasemdir berist í samráðsgátt Stjórnarráðsins fyrir 1. október en hér má sjá heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum í Samráðsgátt.
Sæbjörg
bb@bb.is