Mikil gleði þegar nýji körfuboltavöllurinn var vígður

Samtökin Heilsubærinn Bolungarvík vígðu og afhentu Bolungarvíkurkaupstað nýjan körfuboltavöll á sunnudaginn. Logi Gunnarsson körfuboltahetja og landsliðsmaður til margra ára kom og heiðraði viðstadda með nærveru sinni ásamt liðsmönnum Vestra sem sýndu listir sínar á vellinum. Grillaðar voru pylsur og runnu svalarnir ljúflega niður með. Veðrið sýndi á sér sínar bestu hliðar og lék við vígslugesti. Heilsubærinn hefur unnið að því verkefni allt síðastliðið ár að fjármagna endurbyggingu körfuboltavallarins við Grunnskólann í Bolungarvík og er því ánægjulegt að sjá þetta verkefni loksins verða að veruleika og geta boðið samfélaginu til vígslu. “Verkefnið er stórt fyrir ekki stærri félagasamtök en Heilsubæinn og eigum við samfélaginu allt að þakka fyrir að hafa staðið svona vel við bakið á okkur. Upphafleg kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 6,5 milljónir en verkefnið endaði í mun lægri upphæð, þökk sé þeim fyrirtækjum sem gáfu vinnu sína við malbikun og uppsetningu vallarins. Stjórn Heilsubæjarins vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu styrktaraðilum og sjálfboðaliðum sem lögðu verkefninu lið, kærlega fyrir aðstoðina við að koma vellinum á laggirnar. Án styrkra og samhentra handa samfélagsins yrði svona verkefni aldrei að veruleika.

Í tilefni af vígslunni var Bolungarvíkurkaupstað færðir körfuboltar af Körfuboltadeild Vestra í samstarfi við Nettó. Boltarnir munu verða geymdir í afgreiðslu Musters vatns og vellíðunar og þar geta allir fengið lánaðan bolta til að nota á vellinum. Logi Gunnarsson áritaði einnig treyju og gaf Heilsubænum að gjöf. Treyjan verður hengd upp í Musterinu þegar líður á veturinn svo allir geti séð hana.

Verkefnið um uppbyggingu körfuboltavallarins er hluti af mun stærra verkefni er snýr að íþróttauppbyggingu í Bolungarvík og uppbyggingar skólalóðarinnar í bænum. Fyrir á skólalóðinni er sparkvöllur sem gefinn var af KSÍ og hreystivöllur, sem gefinn var af Foreldrafélagi GB og nú bætist endurbættur körfuboltavöllur við flóruna. Körfuboltavöllurinn sem var þarna fyrir á sama stað var orðinn gamall og þurfti verulega á yfirhalningu að halda. Nýji völlurinn og körfurnar koma frá fyrirtækinu SportCourt í Bandaríkjunum sem er mjög framarlega á þessu svæði í heiminum.

Magnús Ingi Jónsson, formaður samtakanna Heilsubærinn Bolungarvík var svo vinsamlegur að senda þessar myndir, má hann eiga bestu þakkir fyrir.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA