Nokkrar breytingar eru í vatninu hjá Stjórnarráði Íslands. Velferðarráðuneytinu verður skipt upp í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti, jafnréttismál færast á ábyrgð forsætisráðuneytis og málefni mannvirkja færast úr umhverfisráðuneyti í félagsmálaráðuneyti. Markmiðið með þessum breytingum er að skýra verkaskiptingu, skerpa pólitíska forystu og skapa aukin sóknarfæri í málaflokkum sem ríkisstjórnin hefur í forgangi. Tillaga til þingsályktunar þessa efnis hefur verið samþykkt í ríkisstjórn og verður nú lögð fyrir Alþingi.
Með breytingunni fjölgar ráðuneytum úr níu í tíu við skiptingu velferðarráðuneytisins í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. Ráðgert er að embættistitill ráðherra nýs félagsmálaráðuneytis verði félags- og barnamálaráðherra og endurspeglar það áform stjórnvalda um aukna áherslu á málefni barna og ungmenna. Undirbúningur að breyttri skipan ráðuneyta hefur staðið yfir í sumar og hefur forsætisráðuneytið leitt vinnuna í samráði við hlutaðeigandi ráðherra.
Innan Stjórnarráðsins verður áfram unnið að því að efla sameiginlega stoðþjónustu fyrir öll ráðuneytin til að efla þjónustu, auka framleiðni og skilvirkni og auka jafnframt kostnaðarlega hagkvæmni.
Tímasetning breytinga
Stefnt er að því að nýr forsetaúrskurður um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti og nýr forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta með þeim breytingum sem hér hafa verið raktar komi til framkvæmda 1. janúar 2019.
Sæbjörg
bb@bb.is