Ísafjarðarbær ætlar að taka þátt í tilraunaverkefni á vegum Íbúðalánasjóðs sem snýst um uppbyggingu í húsnæðismálum á landsbyggðinni. Þetta var samþykkt á bæjarráðsfundi 17. september og Guðmundi Gunnarssyni bæjarstjóra falið að óska eftir þátttöku.
Tilraunaverkefnið snýst um að leita leiða til þess að bregðast við þeim mikla húsnæðisvanda sem ríkir víðsvegar á landsbyggðinni, meðal annars vegna óvirks íbúða- og leigumarkaðar og skorts á viðunandi íbúðarhúsnæði. Verkefnið tekur mið af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að stuðla skuli að eflingu og auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði og að litið verði til ólíkra áskorana eftir landssvæðum í því samhengi. Þá tekur verkefnið einnig mið að stefnumótandi byggðaáætlun sem samþykkt var á Alþingi þann 11. Júní þar sem er meðal annars kveðið á um markmið um fjölgun íbúa á svæðum þar sem skortur á hentugu íbúðarhúsnæði hamlar uppbyggingu sveitarfélagsins.
Íbúðalánasjóði var lögfest nýtt hlutverk á vormánuðum og hefur nú meðal annars það hlutverk að vinna að stefnumótun á sviði húsnæðismála og vera ráðgerra til ráðgjafar um mótun húsnæðisstefnu, ásamt því að halda utan um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga.
Sæbjörg
bb@bb.is