Hún er einskis virði ef enginn veit af henni. Hún er sömuleiðis einskis virði ef hún er ekki aðgengileg. Og hún er sannarlega einskis virði ef hún er ekki nýtt.
Þekking er þó allt í kring um okkur; gömul þekking, ný þekking, uppsöfnuð þekking innan fyrirtækja, hjá einstaklingum o.s.frv. Þekking er í umræðunni, talað er um þekkingarsamfélag og framundan er enn meiri umræða um þekkingu í tengslum við hina svo kölluðu fjórðu iðnbyltingu, sem þegar er hafin. Við erum þekkingarsamfélag, hvort sem við vitum það eða ekki. Öll verslun hefur breyst mikið á undanförnum árum, m.a. einfaldara aðgengis að þekkingu, aukinni þekkingar öflun fyrirtækja og markvisari markaðsboðskap til neytenda. Við sjáum nýjar boðleiðir, snjallsíma og önnur snjalltæki, boðmiðlun er hraðari, einfaldari og umfram allt, útbreiddari og aðgengilegri en nokku sinni áður. Þekking er almannaeign, netið er okkar bókasafn
Samt er það svo, að okkur yfirsést oft sú þekking sem býr i nærsamfélaginu, í okkar daglega lífi. Við, og þá meina ég íbúar, fyrirtæki og stofnanir á Vestfjörðum, sækjum oftar en ekki þekkingu suður eða fáum hana að sunnan. Okkur yfirsést oft okkar eigin þekking.
Íbúasamsetning Vestfjarða hefur breyst á undanförnum árum og sífelt bætast við einstaklingar af erlendu bergi brotnir sem og aðrir aðfluttir Vestfirðingar. Mikil þekking býr oft í þessum einstaklingum, þó svo hún nýtist ekki með beinum hætti í þeirra daglega starfi. Það kemur samt ný þekking með nýju fólki og við þurfum að virkja hana.
Þekking getur líka horfið og farið með fólki af svæðum eins og Vestfjörðum. Fólksfækkun er víða staðreynd og með fólki fer þekking. Fólk hættir í starfi, flytur burt, hverfur úr nefndum, ráðum, sveitarstjórnun og má t.d. nefna að yfir allt landið koma hátt í 60% sveitarstjórnarmanna ekki aftur í sveitarstjórn við upphaf nýs kjörtímabils. Þarna verður í fyrstu til þekking á innviðum samfélaga, stjórnsýslu og samfélagsmálum o.s.frv., sem svo hverfur úr sveitarstjórnum með þessum fulltrúum.
Ég hef í gegn um tíðina verið fylgjandi því að við gerðum úttekt á þeirri þekkingu sem býr í raun í fólki á Vestfjörðum. Að við gerðum formlega og markvissa úttekt og greiningu á því þekkingarsamfélagi sem Vestfirðir eru. Ég sé fyrir mér að Fræðslumiðstöð Vestfjarða gæti leitt þessa vinnu og dregið svo að borðinu aðila eins og menntastofnanir, Vestfjarðastofu, sveitarfélögin, fyrirtæki, þróunarsetrin og einstaklinga og náð þannig á endanum yfirsýn yfir þá þekkingu sem er til staðar á Vestfjörðum.
Við eigum að leggja metnað okkar í að nýta þekkingu og reynslu hvers annars, leita eftir þjónustu heima fyrir, í stað þess að afskrifa það strax að þessi þekking sé til. Við eigum að hafa það sem fyrstu hugsun að leita heima. Þannig eflum við þá hugsun og vitneskju að þekking sé til staðar. Þá fyrst öðlast hún gildi og verður verðmæt.
Þorgeir Pálsson
Sveitarstjóri Strandabyggðar.