Senn líður að því að Alþingi Íslendinga komi saman eftir sumarleyfi.
Það vekur spurningar um hver afstaða þingmanna Norðvesturkjördæmis til helstu mála
í kjördæminu sé. Hér áður fyrr voru þingmenn Vestfjarða á vaktinni, þegar miklir hagsmunir kjördæmisins voru á dagskrá. Þeir töldu það skyldu að þjóna fólkinu sínu heima og reyna eftir megni að tryggja framgang brýnna hagsmunamála. Þeir voru þó þingmenn alls Íslands.
Mér verður oft hugsað til gömlu daganna ( enda farinn að eldast sjálfur ) þegar menn eins og Matthías Bjarnason, Steingrímur Hermannsson og fleiri ótaldir, létu til sín taka, þegar þurfti. Hefðu þeir setið þögulir og látið allt yfir sig ganga ? Hefðu þeir látið embættismannakerfið í formi stofnana eins og Hafrannsóknarstofnunar, Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar, svo nokkrar séu nefndar, taka völdin í landinu ? Mitt svar við þessari spurningu er NEI.
Þrískipting valdsins, Alþingi, ríkisstjórn og dómstólar, var við lýði og það þekktist varla þá að undirstofnanir einstakra ráðuneyta tækju völdin af ríkisstjórn og Alþingi.
Í stuttri blaðagrein verður ekki farið ýtarlega í smærri atriði, en af nógu er að taka og
almenningur þekkir vel til mála.
Teigsskógur ( Teigskjarr )
Hvað hefði Matthías Bjarnason verið búinn að gera í Teigsskógsmálinu ?
Auðvitað hefði hann verið búinn að leggja fram frumvarp um að taka svæðið eignarnámi,
ráðstöfun sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að taka, til að tryggja framgang vegagerðar í samræmi við tillögur Vegagerðar ríkisins og eindreginn vilja Vestfirðinga.
Það eitt að auðjöfrar ( IKEA )skuli komast upp með að bera fé á hreppsnefnd Reykhólahrepps, til að fá kollvarpað ákvörðunum löglega kjörinna stjórnvalda, hefðu þingmenn Vestfjarða hér áður fyrr ekki ekki látið sér lynda. Nú er öldin önnur eða hvað?
Hvalárvirkjun.
Í mörg ár hafa nokkrir einstaklingar undirbúið virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, rannsakað svæðið og náð samningum við eigendur vatnsréttinda. Undirbúningur framkvæmda hefur verið í nánu samráði við hreppsnefnd Árneshrepps. Þrátt fyrir mikið mótlæti frá hendi svokallaðra aðgerðarsinna ( atvinnumótmælenda ) eru málin nú komin í þann farveg, að leyfi til að leggja vegi um svæðið, til að ljúka rannsóknum og undirbúningi, eru væntanleg innan skamms, að því er best er vitað.
Ekki þarf að fjölyrða um ástand raforkumála á Vestfjörðum, bæði varðandi framleidda raforku á svæðinu og ekki siður afhendingaröryggi orkunnar. Hvalárvirkjun skiptir sköpum í lausn þessara atriða, ef rétt er á málum haldið.
Vegna kostnaðarumfangs virkjunar Hvalár var stofnað fyrirtækið Vesturverk, sem síðar fékk til liðs við sig Orkuveitu Suðurnesja.
Þingmenn Norðvesturkjördæmis verða að fylgjast náið með þróun þessa máls og styðja það
með öllum ráðum, en huga sérstaklega að andófi þeirra afla, sem virðast, því miður, finnast bæði í hópi þingmanna og í ríkisstjórn Íslands. (Hugsið til Matthíasar og Steingríms)
Fiskeldi í Ísafjarðardjúpi.
Árum saman hafa íbúar norðanverðra Vestfjarða verið dregnir á asnaeyrum af stofnunum, sem heyra undir hin ýmsu ráðuneyti Íslands. Sjálfsagðri kröfu um að fá að nýta firði og flóa undir fiskeldi, m.a. í Ísafjarðardjúpi, hafa forustumenn þessara stofnana velt á undan sér árum saman, án þess að þingmenn Norðvesturkjördæmis geri athugasemdir eða lýsi áhyggjum sínum. Þeir telja eflaust að laxeldið skipti ekki meginmáli fyrir íbúa svæðisins, þrátt fyrir þróunina á suðurfjörðum Vestfjarða, þar sem íbúum hefur fjölgað til muna og atvinnu-og mannlíf tekið vaxtarkipp. Að ekki sé nú minnst á laxeldið í Færeyjum eða í Noregi.
Í Ísafjarðardjúpi hengir forstjóri Hafrannsóknarstofnunar sig á mikilvægi örfárra laxa,
afkomenda þeirra sem hann flutti sjálfur sem veiðimálastjóri úr Kollafirði í árnar við Djúp,
hér áður fyrr. Sem sagt, 300-400 laxar skulu koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu í laxeldi á Ísafirði, Bolungarvík eða Súðavík. Hvað er að þessu fólki ? Hverjir ráða málum ?
Ríkisstjórnin ? Alþingi ?
Um áratuga skeið hefur íslenska þjóðin deilt um skiptingu veiðiheimilda og margir talið að
vitlaust sé gefið. Ekki eru líkur á að gefið verði upp á nýtt á næstunni, en þegar íbúar þeirra landssvæða,sem tapað hafa fiskveiðiheimildum sínum í stórum stíl, vilja rétta hlut sinn með fiskeldi, sem ekki raskar núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, láta þingmenn og ríkisstjórn undirsáta sína hafna því með öllu. Hvað hefðu þeir Matthías og Steingrímur sagt og gert ?
Magnús Reynir Guðmundsson