Horfum í sömu átt

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Sæll Magnús Reynir. Takk fyrir að brýna okkur þingmenn kjördæmisins til dáða. Það er vissulega rétt að málefni Vestfjarða virðast í stóru málunum sitja föst á skeri. Lítið þokast og virðist vera náttúrlögmál að ef einhver framfaramál eru í farvatninu þá eru allar bjargir bannaðar.

Matthías og Steingrímur voru duglegir og gengu í málin, en þeir voru líka ennþá á þingi þegar allar tilskipanir, lög og innleiðingar á alþjóðlegum sáttmálum voru festar í sessi sem leiddu til þess þyngja kerfið. Kæruleiðir í umhverfismálum og flækjustig mála virðast endalaust. Margir telja það til bóta og er það efalaust í mörgum málum. Þótt „allt“ hafi verið betra í gamla daga þá munum við líka eftir hugsunarleysi í framkvæmdum og mannvirkjagerð eins og virkjanir, vegagerð eða línulagnir þurftu ekki að fara í umhverfismat. Það var nóg að tveir kallar kæmu saman héldu á landakorti og fóru svo beint af augum. Einfaldara já! Betra?

Hvalárvirkjun virðist vera komin á reikspöl og er vonandi að verða að veruleika. Vegagerð í Reykhólasveit er ekki lengur efni í smásögu heldur framhaldsþætti þar sem lokakaflinn er ekki í sjónmáli. Sveitastjórn Reykhólahrepps var búin að samþykkja aðalskipulag þar sem Þ-H leiðin (Teigskógur) var inni en ákvað að láta kanna betur R- leiðina sem norska verkfræðistofan Multiconsult tók út. Eftir því sem mér skilst má vænta skýrslu frá Vegagerðinni nú um mánaðarmótin þar sem Vegagerðin metur norsku skýrsluna og á þá sveitastjórnin eftir að taka afstöðu til þess hvort þau vilja breyta skiplaginu hjá sér eða að auglýsa skipulagið vegna Þ-H leiðarinnar og þá opnast kæruleiðir sama hvor leiðin verður ákveðin. Næsti kafli í framhaldsþættinum.

Laxeldið í Ísafjarðardjúpi. Já þar virðist erfitt að þoka málum. Frumvarp um laxeldi eða fiskeldi á að koma fram nú á haustdögum og ég held að það skipti máli hvernig þar verður haldið á spöðunum til þess að þoka málunum áfram. Við viljum öll fara að ráðum vísindamanna og setja allar varnir þar sem umhverfið er virt og sú auðlind sem við búum við. Það þarf að gera í samvinnu við fiskeldisfyrirtækin og efast ég ekki um og hef það fyrir víst að þau vilja það líka. Það er líka okkar Vestfirðinga að vinna þjóðina á okkar band og verða ekki undir í þeirri umræðu að við viljum gera þetta í sátt við umhverfið.

Ég er talsmaður þessara framfaramála á Vestfjörðum og tala með þeim þegar mér gefst tækifæri og þá er bara að gefast ekki upp og það er líka gott að fá hvatningu að vestan. Það sem hvetur mig mest áfram er koma vestur og sjá þann kraft sem býr í fólki og sterkan vilja að lifa og starfa þar áfram. Við eigum að láta það heyrast sem víðast að við höfum alltaf staðið vörð um náttúruna enda lifum við með henni, njótum og lútum og ætlum að gera það áfram.

Halla Signý Kristjánsdóttir
7. þingmaður NV kjördæmis

DEILA