Nú í ágúst 2018 eru liðin 100 ár frá því að gamla Rafstöðin í Bíldudal var gangsett.
Stöðin er með fyrstu vatnsaflsstöðvum í almenningseigu sem risu á Íslandi. Hún var keyrð í hálfa öld, þar af 30 ár sem rafveita fyrir kauptúnið Bíldudal og 20 ár sem rafveita fyrir sveitabýlin Litlu-Eyri og Hól í Bíldudal.
Áhugahópur vinnur að uppgerð hússins og véla og hefur allur vélbúnaður varðveist utan tvö viðnám og aðfallspípa og stífla eru rústir. Stöðin er eign Vesturbyggðar.
Stiklur í sögu Rafstöðvarinnar:
- Haustið 1911 var gangsett vatnsaflsstöð á Patreksfirði með virkjun Litladalsár á Geirseyri, Pétur Á. Ólafsson stóð fyrir henni en Jóhannes Reykdal framkvæmdi.
- Sumarið 1913 fóru einstaklingar á Bíldudal að huga að því að byggja rafstöð fyrir kauptúnið.
- Vorið 1915 var þingmanni kjördæmisins falið að útvega lán hjá Alþingi til Suðurfjarðarhrepps til raflýsingar Bíldudalskauptúns.
- Bygging Rafstöðvarinnar hófst vorið 1916.
- Fallhæð var 66 metrar, vatnshjól var 60 hestöfl og háspennuvél var 40 kW, 2,5 kV, 16 A, 54 hestöfl, snérist 1000 snúninga á mínútu og gaf einfasa breytistraum við 50 rið á sekúndu.
- Lágspennuvél gaf jafnstraum til notkunar í stöðvarhúsi.
- Smíði húss var lokið 1917 og vélbúnaðurinn var að mestu kominn upp en heimstyrjöldin tafði verkið.
- Stöðin var gangsett í ágúst 1918.
- Þriggja manna stjórn er kallaðist rafveitunefnd var skipuð af Suðurfjarðarheppi og annaðist rekstur stöðvarinnar.
- Rafstöðvarstjóri bjó á efri hæð með fjölskyldu.
- Í desember 1918 var gangsett 36 hestafla og 23 kW rafstöð í Litladalsá á Patreksfirði á vegum Patrekshrepps, húsið var samskonar en var síðar breytt í íbúðarhús og stækkað.
- Árið 1928 er stöðin aflmesta vatnsaflsstöð landsins miðað við íbúafjölda dreifikerfisins, gat framleitt 150 wött á mann meðan jafnaðarframleiðsla vatnsaflsstöðva í landinu var 67 wött á mann og Elliðaárstöðin framleiddi 66 wött á mann.
- Haustið 1931 var Hnúksvatni breytt í miðlunarlón fyrir stöðina.
- Árið 1931 voru 65 notendur, 25 götuljós, 600 lampastæði, 10 ofnar, 36 suðuplötur og 29 strokjárn tengd stöðinni.
- Árið 1935 var spennir sem fylgdi stöðinni færður út úr kauptúninu, spennirinn er varðveittur.
- Árið 1947 var 25 kW dísilvélasamstæða, sem Rækjuverksmiðjan átti, notuð að degi til fyrir hluta bæjarkerfisins.
- Árið 1948 var dísilstöð Rafveitu Suðurfjarðarhrepps tekin í notkun og eftir það var stöðin eingöngu notuð fyrir Hól og Litlu-Eyri og spennirinn færður til móts við bæina.
- Árið 1968 brotnaði krani til að hleypa út lofti á vatnshjólinu og rekstri stöðvarinnar var hætt.
Stöðvarstjórar
Eiríkur Einarsson 1918-1919
Hrómundur Sigurðsson 1920-1938
Ásgeir Jónasson 1939-1941
Theódór Ólafsson 1942
Brynjólfur Eiríksson 1943-1947
Halldór Guðbjartur Jónsson 1948
Samantektin er eftir Helga Hjálmtýsson