Frelsi einstaklingsins

Greinarhöfundur gekk hluta af Jakobsveginum fyrir ekki svo löngu.

Um daginn gekk ég ásamt fleirum hluta af Jakobsveginum á norður Spáni. Við fjalltopp einn komum við að minnisvarða um 92 einstaklinga sem voru teknir af lífi af böðlum fasista í borgarastyrjöldinni þar í landi, sem háð var frá 1936 til 1939. Þetta var fjöldagröf fjölskyldna, fólks á öllum aldri og meðal annars konur og börn. Með morðunum voru fasistar að senda skilaboð til íbúa héraðsins um að standa ekki með sósíalistum og lýðveldissinnum í styrjöldinni. Líkamsleifar fórnarlambanna fundust nýlega, um 80 árum eftir morðin, og reistur hefur verið minnisvarði um þennan hryllilega atburð.

Minnisvarðinn.

Nú er það svo, að ganga um Jakobsveginn gengur að hluta út á íhugun og vangaveltum yfir lífinu og tilverunni. Þessi minnisvarði sótti svo á mig og ég upplifið álíka tilfinningu og þegar ég gekk um slóðir Berlínarmúrsins og sá fyrir mér þann þjóðarglæp sem kommúnistar frömdu í Austur Þýskalandi. Það sótti á mig hversu mikilvægt frelsi einstaklingsins, lýðræði og mannréttindi eru, ásamt ríkisvaldi sem þjónar einstaklingum en ekki öfugt. Það sló niður í huga minn þeirri einföldu staðreynd að hefði ég verið uppi á Spáni á þessum tíma hefði ég barist við hliði á sósíalista. Ég hefði aldrei getað fylgt málstað og stefnu fasista. Slíkt er algjörlega á móti öllu því sem ég trúi á og stend fyrir.

Nú er ljóst að sósíalismi er engu betri en fasismi, eins og hann birtist okkur í gegnum söguna. Sporin hræða; frá Sovétríkjunum sálugu, Kína Maos, Kúbu o.sfr. Enn sjáum við hvernig sósíalismi rústar heilu samfélögunum eins og í Venesúela og nú stefnir í hörmungar í Niguracua. Ég geri hér skýran greinarmun á krötum eins og stjórnað hafa í Evrópulöndum, þar sem lýðræði, frelsi og réttindi einstaklingsins eru höfð í hávegum, frá sósíalistum (kommúnistum). Lýðræðissinnaðir kratar notast við markaðshagkerfi til að byggja upp öflugt samfélag sem staðið getur undir velferðarkerfi og jafna kjör.

En hvernig hefði þá hægri maður eins og ég getað barist með sósíalistum á Spáni? Málið er að lýðveldissinnar (lýðræðisöflin) börðust með sósíalistum gegn helstefnu fasismanns. Í raun hefði alltaf komið upp til uppgjörs milli þessara aðila ef sigur hefði unnist, en það voru fasistar undir forystu Fransisco Franco sem fór með sigur af hólmi. Fasistar töldu fólki trú um að þeir myndu virða eignarréttinn og halda í gamla góða siði, með stuðningi kaþólsku kirkjunnar og tryggja stöðugleika undir öflugu ríkisvaldi. Það sem fylgdi með í kaupunum var algjört vald ríkisins yfir einstaklingunum. Einstaklingurinn var til fyrir ríkið og fórnir til að viðhalda öflugu ríki, var réttlættur. Þarna kemur samlíkingin við sósíalismann en frjálshyggjan gerir ráð fyrir að ríkið sé til fyrir einstaklinginn.

Það er áhugavert að velta fyrir sér stöðunni í dag þegar fasismi er með vind í seglum í Evrópu og jafnvel Bandaríkjunum. Það er trúin á sterkan leiðtoga, sem blæs í seglin, manni sem getur leiðrétt meint óréttlæti og komið skikki á hlutina. Hann lætur verkin tala þar sem embættismenn og kerfið geta ekki staðið í vegi fyrir „leiðréttingunni“. Eins mikið og það getur litið vel út að sterkur leiðtogi geti gengið í málin vafningalaust án þess að kerfið sé að þvælast fyrir og náð þannig skjótum „árangri“ þá er það dýru verði keypt og uppskeran önnur en sáð er til.

Nákvæmlega eins og Trump er að gera í Bandaríkjunum. Sem forseti getur hann í skálkaskjóli þjóðaröryggis sett reglugerðir um allskyns hluti og breytt samskiptum við vinaþjóðir sem allt í einu eru orðin ógn við þjóðaröryggi. Gengið er gegn þeirri meginstefnu Bandaríkjanna að auka alþjóðaviðskipti og í staðinn koma á einangrunarstefnu; sem verður öllum íbúum jarðarinnar til tjóns. Við upplifum það á þessum skrítnu tímum að brjóstvörn lýðræðisins er farin í stríð við fjölmiðla, og gætu sett kúrsinn í sömu átt og Ungverjar, Tyrkir og Rússar. Sannleikurinn skiptir engu máli og allt snýst um að segja hlutina nógu oft til að þeir verði sannir. Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar maður rifjar upp þá aðferðafærði úr sögu síðustu aldar.

Það sem undrar mig þó mest er sá stuðningur sem þessi öfl hafa hjá fólki sem maður hélt að tryði á lýðræði og frelsi. Tryði á borgaraleg réttindi, frjáls viðskipti og markaðhagkerfi, en stendur allt í einu með öflum sem geta aldrei samrýmst þeim hugsjónum. Í lokin vil ég hvetja alla til að lesa „Veröld sem var“ eftir Stefan Zweig þar sem lýst er uppgangi nasisma í Þýskalandi og Austurríki á síðustu öld. Það er hugsandi fólki þörf lesning og víti til að varast.

Gunnar Þórðarson

DEILA