Færeysk kaupstefna í Edinborgarhúsinu

Færeyingar héldu kaupstefnu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í dag þar sem fjöldi Færeyskra fyrirtækja kynntu vörur og þjónustu sína. Þarna voru fyrirtæki sem framleiða búnað meðal annars fyrir sjávarútveg og fiskeldi. Einnig var kynning á Færeyskum bjór.

Það var Petur Petersen sendiherra Færeyja á Íslandi sem opnaði kaupstefnuna og talað í fyrstu á íslensku en síðan á ensku. Síðan tók til máls ráðherra utanríkis- og viðskiptamála í Færeyjum, Poul Michelsen og ræddi við gesti á íslensku. Meðal annars varð honum tíðrætt um ísfirskan fótbolta. Þá tók til máls bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Guðmundur Gunnarsson, og þakkaði vinum okkar Færeyingum fyrir heimsóknina til Ísafjarðarbæjar. Hann sagði frá því að hann hefði snætt hádegisverð með sendinefndinni á Hótel Ísafirði og hefði lært ótrúlega mikið á þeim klukkutíma sem málsverðurinn tók, og það væri augljóst að Íslendingar gætu lært mikið af nágrönnum sínum og vinum í Færeyjum. Að lokum söng tónlistarmaðurinn Hallur Joensen nokkur lög við góðar undirtektir gesta. Fyrst var það lag Bubba Mortens „Ég vil elska konu“ en sungið á færeysku. Hann endaði með laginu „Rasmus“ og ljóst að fortíðarþráin hríslaðist um marga sem komnir eru af léttasta skeiði, enda lagið vinsælt hér á landi á sjötta áratugnum.

Færeyingar buðu upp á hlaðborð af mat frá heimaslóðum og mátti þar bragða á þjóðarrétti þeirra, skerpukjöti. Einnig mátti sjá þarna reykta grálúðu, steiktan og reyktan lax, reyktan makríl, fiskisúpu og margt fleira. Kokkurinn sem töfraði fram þessa þjóðlegu og bragðgóðu rétti heitir Jan E. Petersen.

Þetta var sannarlega góð heimsókn og mikil vinafagnaður á kaupstefnunni í Edinborgarhúsinu. Það er sjálfsagt komin tími til að Djúpmenn endurgjaldi heimsóknina, hrindi bát úr vör og heimsæki frændur okkar í Færeyjum. Færeyjarmarkaður hefur verið svæðinu mikilvægur hingað til, sem dæmi má nefna að Skaginn 3X hefur selt framleiðsluvörur fyrir marga milljarða undanfarin ár til Færeyja. En við getum boðið upp á fleira, t.d. bjór, harðfisk og súkkulaði.

Gunnar

DEILA