„Ekki misskilja mig vitlaust!“ – Mismæli og ambögur

Fyrir stuttu kom út bókin „Ekki misskilja mig vitlaust!“ eftir Guðjón Inga Eiríksson og inniheldur hún mismæli af ýmsum toga og ambögur. Þar koma margir við sögu og má þar nefna Guðbjart Jónsson, lengi veitingamann í Vagninum á Flateyri, fjölmarga frétta- og dagskrárgerðarmenn af ljósvakamiðlunum, stjórnmálamenn, Eyþór í Lindu á Akureyri og drottningu mismælanna, sjálfa Vigdísi Hauksdóttur.
Hér á eftir verður gripið niður í bókina:

Guðbjartur Jónsson, veitingamaður á Flateyri:

„Sá vægir sem veit ekki meira.“

*

„Þegar neyðin er stærst, þá verður hún ekki mikið stærri.“

*

„Margt smátt gerir eitt lítið.“

*

„Það er bara einn sem hefur einkarétt á þessu.“

*

„Ekki misskilja mig vitlaust!“

*

„Hann er fasisti á vín og tóbak.“

Þorsteinsína Guðrún Gestsdóttir – kölluð Ína, frá Víðidalsá í Steingrímsfirði:

Ína heyrði sögu, vildi vita aðeins meira um það fólk sem þar var nefnt og varð þá að orði:
„Ja, nú vildi ég vera dauð fluga á vegg.“

*

Ína var að máta föt á dóttur sína, sennilega Göggu. Stelpan var ekki kyrr, sem gerði Ínu erfitt um vik, svo hún sagði frekar ákveðin:
„Hafðu hendurnar niður með handleggjunum.“

*

Eitt sinn kom Ína, ásamt dóttur sinni, inn í Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Tilefnið var að kaupa peysu á dóttur sína, en þegar stelpan hafði mátað nokkrar flíkur, án þess að þær pössuðu, sneri móðirin sér að afgreiðslustúlku í búðinni og sagði:
„Ég er í vandræðum með að fá föt á stelpuna því hún er svo ermalöng.“

*

Ína og Jón höfðu verið á skemmtun, annaðhvort góugleði eða þorrablóti, og var mikið fjör. Daginn eftir sagðist Ína hafa verið svo þreytt þegar hún kom heim að hún „hefði hent sér undir rúm“.

*

Það var verið að ferma yngsta barn þeirra Ínu og Jóns og eina drenginn í barnahópnum þeirra. Eftir fermingarveisluna sagði Ína við mann sinn að sér leiddist að ekki yrðu fleiri fermingar hjá þeim. Jón svaraði:
„Það er nú ekki mikið mál að kippa því í lag, Ína mín.“
Þá gall við í Ínu:
„Er það nú ekki nokkuð seint í rassinn rekið, Jón minn?“

*

Iðnaðarmenn að sunnan voru að lagfæra embættisbústað sýslumanns Strandamanna á Hólmavík. Vinnubrögð þeirra bárust eitt sinn í tal í hópi heimamanna og var Ína þar á meðal. Sagðist hún hafa það eftir Gunnari Grímssyni, málara í kauptúninu, að vinnubrögð iðnaðarmannanna væru alls ekki nóg góð. Einhver segir þá að Gunnar hafi sagt sér hið gangstæða, að vinnan við húsið gangi vel og verkið sé ágætlega unnið. Þá heyrðist í Ínu:
„Gunnar er þá bara tvítóla.“

Nokkrir fréttamenn:

„Ekki er vitað um upptök eldsins, en fólk sem bjó í næsta húsi kallaði á slökkviliðið frá Patreksfirði, sem er 60 kílómetra frá, og var slökkviliðið brunnið þegar það kom.“
Kolfinna Baldvinsdóttir, fréttakona á Stöð 2:

*

„Færð hefur hvergi komið í veg fyrir að fólk kæmist á kjörstað.“
Telma Tómasson, fréttakona á Stöð 2.

*

„Ölvun og áfengi fara ekki saman.“
Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu.

*

Mikil ásókn var í lóðirnar og fengu fleiri en vildu.“
Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttamaður á Stöð 2.

Sveinn Snorri Sighvatsson í Reykjvík síðdegis:

Það var niður við Tjörn. Svenni var þar með unga stúlku „í beinni“ og hóf spjallið við hana á þessari spurningu:
„Ertu að gefa brauðunum önd?“

*

Svenni var einhverju sinni að segja hlustendum Bylgjunnar frá miklum snjóþyngslum í Reykjavík og gat þess þá, að hann hefði um morguninn þurft að „leggjast á fjögur hné“ til að grafa sig með berum höndum út úr kjallaraíbúð sinni.

*

Eitt sinn gaf Svenni ökumönnum eftirfarandi heilræði:
„Þið munið svo að hafa ljósin spennt og kveikt á beltunum.“

Lási kokkur:

Eitt sinn, þegar Lási vann í eldhúsinu á Hótel Heklu, var hann sendur með stóra og fagurlega skreytta rjómatertu til Zimsen. Hann hélt á tertunni með báðum höndum og gekk frá hótelinu, sem var við Lækjartorg, áleiðis að Zimsen-húsinu við Hafnarstræti. Þegar hann átti stuttan spöl ófarinn rak hann tærnar í og datt kylliflatur fram fyrir sig – með andlitið ofan í tertuna.
Þessu óhappi lýsti Lási svo:
„Ég rak gangstéttina í tærnar og missti andlitið í tertuna.“

*

Lási var kokkur á strandferðaskipinu Esju og áfangastaðurinn var Reykjavík. Þegar stutt var þangað vatt virðuleg frú sér að honum úti á þilfari og spurði:
„Veistu hvenær við komum til Reykjavíkur?“
Svarið kom, stutt og laggott:
„Eftir svo sem tvo og hálfan annan tíma.“

*

Lási keypti eitt sinn mikið af sígarettum áður en hann hélt til sjós og var spurður að því hvað hann ætlaði eiginlega að gera við öll þessi ósköp af tóbaki.
„Það er ekki víst að við komum í höfn bráðlega,“ svaraði Lási, „svo mér þótti vissara að hafa vaðið fyrir ofan mig.“

Vigdís Hauksdóttir, stjórnmálakona:

„Við skulum bara sjá til en ég er á engan hátt að stinga höfðinu í steininn.“ Vigdís í viðtali við Stöð 2.

*

„Frú forseti. Það mega sumir kasta gróti úr steinhúsi.“
Ummælin lét Vigdís falla í ræðustól á Alþingi eftir stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra þann 3. október 2011.

*

„Ég vil nú helst tala í fortíðinni, horfa til framtíðar og standa hér í nútíðinni, heldur en að vera að líta til baka.“
Vigdís í Kastljósviðtali á RÚV, 18. febrúar 2014.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA