Einu sinni fór fólk á fyllerí. Það gerist svo sem ennþá en miklu minna sem betur fer. Nú eru Íslendingar kúltíveraðir og drekka vín og fína bjóra. Og ekki bara í Reykjavík því sífellt bætast við fleiri brugghús á landsbyggðinni þar sem eðalveigar eru gerjaðar eftir kúnstarinnar reglum og bragðbættar svo unun þykir að. Dokkan á Ísafirði er eitt þessara brugghúsa og við á BB höfum stundum fjallað um Dokkuna áður. Það er af því að það er alltaf svo gaman þegar frumkvöðlum tekst að láta drauma sína rætast svo aðrir njóta góðs af en líka vegna þess að aðstandendur Dokkunnar leggja sig fram um að gera virkilega góða vöru. Og hvað er bær í dag ef ekki er þar brugghús? Varla mikið. Nema kannski Flateyri sem þarf ekki brugghús. Þar er búið í boði Bríó.
Dokkubjórinn hefur mælst vel hjá ferðafólki sem hefur getað komið við í brugghúsinu og fengið smakk og þangað hafa líka margir hópar lagt leið sína. Lögurinn er einnig kominn víða á krana og nú hefur enn bæst í því flöskuvélin hefur verið tekin í gagnið og nú má finna American Pale Ale frá Dokkunni og Dynjanda á vel völdum stöðum. „Það kemur væntanlega ein tegund í viðbót fljótlega á flöskur og svo erum við að undirbúa jólabjórinn og fyrstu bruggun á honum,“ sagði Gunnhildur Gestsdóttir, ein úr Dokkufjölskyldunni við blaðamann BB.
„Með tilkomu flöskuvélarinnar getum við sent vöruna víðar og henni er mjög vel tekið,“ sagði Gunnhildur enn fremur. „Við erum ótrúlega þakklát fyrir þær góðu viðtökur sem við höfum fengið. Traffíkin er auðvitað farin að minnka en það hefur verið mjög mikið að gera í allt sumar. En við erum enn með hópa um hverja einustu helgi. Það voru fjórir hópar um síðustu helgi, tveir um næstu og svo koma hópar líka í miðri viku, það eru til dæmis átta manns að koma á eftir en þetta eru saumaklúbbar, starfsmannafélög og bara ýmislegt sem er að gerast,“ segir Gunnhildur og það er alltaf gleðiefni þegar tekst að teygja starfssemi út fyrir ferðamannatímann.
Sæbjörg
bb@bb.is