Aldrei verið fleiri nemendur í MÍ

Menntaskólinn á Ísafirði

BB hafði samband við Menntaskólann á Ísafirði og spurði frétta af skólabyrjun og starfi. Jón Reynir Sigurvinsson skólameistari varð fyrir svörum og hér fyrir neðan má lesa hvað hann hefur að segja um fjölda nemenda og það góða starf sem fer fram í Menntaskólanum:

„Skólastarf fer vel af stað á haustönn í MÍ. Nýnemahópurinn er fjölmennari en mörg undanfarin ár en 67 nýnemar hófu nám í skólanum að þessu sinni. Nýnemar eru flestir frá Vestfjörðum en þó koma tveir þeirra frá öðrum stöðum á landinu. Líkt og mörg undanfarin ár fóru nýnemar í sólarhringsferð að Núpi í Dýrafirði í fyrstu kennsluvikunni og tókst ferðin í alla staði mjög vel. Staðnemar eru alls 256, þar af eru 198 í dagskóla en 58 í dreifnámi með kvöldkennslu eða lotukennslu. Fjarnemar eru 166 en fjarnám hefur verið einn stærsti vaxtabroddur skólans undanfarin ár. Vaxandi fjölda fjarnema telja stjórnendur skólans að megi m.a. rekja til aukinnar þátttöku kennara í fjarkennslu með áherslu á leiðsagnarnám. Alls stunda nú 424 nemendur nám við skólann og hafa þeir aldrei verið fleiri. Stöðugleiki er í starfsmannahaldi skólans og flestir kennarar eru með kennsluréttindi.“

„Nú í haust var afreksíþróttasvið skólans endurvakið í samvinnu við íþróttafélögin Hörð, Skíðafélag Ísfirðinga og blak-, knattspyrnu- og körfuboltadeildir Vestra. Vonast er til að fleiri íþróttafélög bætist við á næstu misserum. Afreksíþróttasviðið er fyrir nemendur sem vilja stunda íþrótt sína með álagi afreksmanna samhliða námi. Á hverri önn taka nemendur 5 eininga nám sem samanstendur af íþróttaæfingum og bóklegri kennslu þar sem eitt ákveðið viðfangsefni er tekið fyrir. Nú hafa 30 nemendur skrifað undir samning um þátttöku á afreksíþróttasviðinu. Með undirritun skuldbinda nemendur sig til að leggja hart að sér í námi og íþróttum auk þess að neyta ekki tóbaks, áfengis, árangursaukandi efna sem og annarra vímuefna,“ skrifar Jón og við þökkum honum kærlega fyrir svörin.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA