Ég var að skrolla niður facebook í einhverju letikasti um daginn og rakst þá á skrif sem minntu mig ágætlega á það af hverju ég kýs að styðja við börnin mín í skipulögðu íþróttastarfi. Tilgangurinn blasir kannski ekki alltaf við svona dag frá degi.
Það er ekki sjálfgefið að börn og unglingar sæki í skipulagt íþróttastarf né heldur er það sjálfsagt að þau endist í því. Stuðningur og þátttaka foreldra geta gert þar gæfumuninn. Rannsóknir sýna einnig að ungmenni sem stunda íþróttir hjá íþróttafélögum oft í viku eru ólíklegri til að leiðast út í vímuefni en aðrir.
Hvers vegna?
Skrifin sem ég rakst á hafa farið víða um heim, næstum eins og flökkusaga, og erfitt er að finna uppruna þeirra. Sumir segja að þetta séu skrif suður-afrískrar móður ungrar afrekskonu í hlaupum. En það má kannski einu gilda hver uppruninn er því boðskapurinn er deilingarinnar virði og svarar því ágætlega hvers vegna foreldrar og forráðamenn ættu að styðja vel við íþróttaiðkun barna sinna:
• Svo börnin læri aga, einbeitingu og skuldbindingu.
• Svo börnin læri að hugsa vel um líkama sinn og íþróttabúnað.
• Svo börnin læri að vinna með öðrum og verða góðir liðsfélagar, standi keik í ósigri og sýni auðmýkt þegar vel gengur.
• Svo börnin læri að höndla vonbrigðin sem fylgja því að ná ekki alltaf markmiðum sínum og haldi svo áfram að gera sitt besta.
• Svo börnin læri að setja sér markmið og ná þeim.
• Svo börnin læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér, liðsfélögum, mótherjum, dómurum og þjálfurum.
• Svo börnin læri að það tekur áralanga vinnu og þjálfun að skapa meistara og velgengni verður jafnan ekki til á einni nóttu.
• Svo börnin geti fyllst stolti yfir smærri afrekum og unnið staðfastlega að markmiðum til lengri tíma.
• Svo börnin fái tækifæri til að mynda ævilöng vináttubönd og skapa góðar minningar fyrir lífstíð.
• Til að forða börnunum frá skjánum.
• Í stuttu máli: Stuðningurinn er ekki við íþróttirnar sem slíkar heldur við öll tækifærin sem íþróttir veita börnunum til að þroska með sér mikilvæga eiginleika – eiginleika sem fylgja þeim um alla framtíð.
Hjálpumst að
Vissulega er það svo að mörg þeirra gilda sem nefnd eru hér að ofan eru höfð í heiðri bæði á heimilum og í skólakerfinu og svo auðvitað í ýmsu öðru skipulögðu tómstundastarfi. Mikilvægt er einnig að hafa í huga að það er alls ekki á allra færi að greiða fyrir tómstundaiðkun barna sinna. Þá er í vissum tilfellum mögulegt að leita til sveitarfélaganna sem styðja fjölskyldur fjárhagslega vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og unglinga. Horft er til bæði fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna og þörfin metin fyrir þátttöku barnanna í þroskavænlegu félagsstarfi.
Fleiri stofnanir koma einnig til greina í þessum efnum, s.s. Hjálparstarf kirkjunnar, auk þess sem Rauði Krossinn getur stundum útvegað viðeigandi fatnað og búnað. Ég þori einnig að fullyrða að íþróttafélögin sjálf taka langflest tillit til aðstæðna hjá iðkendum.
Sterkari sjálfsmynd
Rannsóknir sýna að þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi dregur úr líkum á því að börn og ungmenni leiðist út í vímuefnaneyslu. Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði og dósent við Háskóla Íslands, hefur um árabil gert rannsóknir á sviði íþrótta- og heilsufræði, ekki síst barna og ungmenna. Í rannsókn sem hann kynnti árið 2014 og m.a. var fjallað um á vef ÍSÍ kemur ýmislegt fróðlegt fram. Unglingar sem stunda íþróttir með íþróttafélagi eru líklegri til að standa sig betur í íslensku og stærðfræði í skóla. Þeir meta líkamlega og andlega heilsu sína betri eftir því sem þeir æfa meira og telja sig í betri líkamlegri þjálfun en þeir sem æfa lítið eða ekkert. Þegar kemur að ánægju með líkama sinn er sjálfsmyndin betri hjá þeim sem æfa íþróttir en þeim sem gera það ekki. Íþróttaunglingarnir eru ánægðari með þær líkamlegu breytingar sem orðið hafa á þeim á undanförnum árum og finnst þeir sterkari og hamingjusamari en viðmiðunarhóparnir.
Í þessu samhengi er einnig áhugavert að kynna sér verkefnið Sýnum karakter,sem er unnið í samstarfi ÍSÍ og UMFÍ, en verkefnið sýnir svo ágætlega hvernig hægt er að byggja upp andlega sterka einstaklinga í gegnum íþróttirnar.
Forvarnargildi skipulagsins er ótvírætt
Viðar hefur einnig vakið athygli á því, jafnt í ræðu sem riti, að forvarnargildi íþróttastarfs er ólíkt. Hann fullyrðir að forvarnargildi skipulags íþróttastarfs eins og þekkist á Íslandi sé mun meira en í íþróttastarfi utan íþróttafélaga og skiptir þá engu máli hvort talað er um reykingar, aðra tóbaksneyslu, neyslu áfengis eða maríjúana. Tölurnar tali sínu máli í þessum efnum. Það sem helst skiptir máli í skipulögðu starfi, segir Viðar, er að það er reglumiðað og undir handleiðslu þjálfara. Umhverfi þess á sér sögu, hefðir og viðmið og síðast en ekki síst er aðkoma foreldra mikil. Í óskipulögðu íþróttastarfi utan félaga skortir oft allt þetta.
Ekki verða allir afreksmenn í íþróttum en gildin sem skipulagt íþróttastarf ræktar með iðkendum fylgja þeim um alla framtíð. Sumir skara fram úr í íþrótt sinni en aðrir geta orðið þjálfarar, dómarar, stjórnarfólk og allskyns sjálfboðaliðar sem nauðsynlegir eru til að tryggja áframhaldandi starfsemi öflugs íþróttafélags. Afreksfólkið eitt og sér dugir skammt enda verður það ekki til úr engu.
Birna Lárusdóttir
móðir og sjálfboðaliði í körfubolta