Vestfirski fornminjadagurinn verður haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 9. ágúst næstkomandi milli kl. 13:00 -17:00 í Grunnskóla Suðureyrar. Óhætt er að segja að dagskráin sé ansi vegleg og sannarlega fyrir alla þá sem áhuga hafa á sögu landsins, fornleifum, fornminjum og þjóðmenningu.
Margrét H. Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur mun ríða á vaðið með fyrirlestur sem ber nafnið: „Hvað eru fornleifarnar í Arnarfirði að segja okkur um landnámsöldina?“ Margrét hefur í nokkur ár stundað fornleifarannsóknir á Hrafnseyri og á Auðkúlu. Niðurstöðurnar benda til þess að landnámið hafi verið með öðrum hætti en margir halda. Meðal þess sem hefur komið í ljós er að járnvinnsla hefur verið stórfelld og líklega til útflutnings.
Næstur í röðinni verður svo Jón Jónsson þjóðfræðingur með fyrirlesturinn „Álagablettir, þjóðtrú og saga“. Á fjölmörgum stöðum á Vestfjörðum eru álagablettir, staðir sem bannhelgi hvílir á. Oft má ekki slá grasið á slíkum blettum eða raska þeim með nokkrum hætti. Magnaðar sögur eru svo sagðar um hvernig huldar vættir refsuðu þeim sem brutu gegn bannhelginni. Trú á álagabletti á fornar rætur og svipaðar hugmyndir má t.d. finna í Færeyjum, Skotlandi og Írlandi.
Óskar Leifur Arnarsson, fornleifafræðingur er svo næstur í röðinni með fyrirlestur um minjar Hrafna-Flóka og framkvæmdarannsóknir á sunnanverðum Vestfjörðum. Friðlýstar tóftir eru við bryggjuna á Brjánslæk sem heita Flókatóftir eftir Hrafna-Flóka Vilgerðarsyni sem sagður er hafa fyrstur manna haft vetursetu á Íslandi. Fjórði í röðinni verður Guðmundur Björgvinsson, sagnamaður með sögur af verstöðinni á Kálfeyri, einum merkasta minjastað Önfirðinga. Fáar verstöðvar ef nokkrar eru eins vel varðveittar og verstöðin á Kálfeyri í Önundarfirði. Þangað fóru Önfirðingar í verið og reru til fiskjar í nokkrar aldir.
Björk Magnúsdóttir, fornleifafræðingur verður svo með fyrirlestur um fornleifarannsóknir á býlinu Árbæ. Margt mjög áhugavert er að koma í ljós varðandi upphaf byggðar í Reykjavík. Áður óþekktir stórir skálar hafa t.d. fundist í miðbænum. En í Árbænum hafa einnig fundist mannvirki með landnámslaginu. Á eftir henni verður svo Margrét H. Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur, með fyrirlesturinn „Landnámsskálar og bygging þeirra.“ Sagt verður frá áformum Fornminjafélagsins um að byggja skála svipaðan þeim sem hafa fundist á Vestfjörðum frá landnámstíma.
Að lokum verður frumsýnd heimildarmynd um byggingu verbúðar í Súgandafirði. Sumarið 2016 og 2017 byggðu félagsmenn í Fornminjafélagi Súgandafjarðar verbúð líka þeim sem voru á Vestfjörðum fyrr á öldum. Verbúðin var byggð til að heiðra útvegssögu Íslands og þá tíð þegar forfeðurnir og formæðurnar fóru í verið.
Nánari upplýsingar um fornminjadaginn veitir Eyþór Eðvarðsson, formaður Fornminjafélags Súgandafjarðar í síma 892 1987.
Aron Ingi
aron@bb.is