Uppskeruhátíð Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN) verður haldið næstkomandi mánudagskvöld, þann 27. ágúst og hefst hátíðin stundvísislega klukkan 18:30. Uppskeruhátíð sem þessi, er haldin öll haust að sögn Jóns Egils Jónssonar, íþrótta-og tómstundafulltrúa Dalabyggðar. Jón Egill segir að farið sé yfir mætingar og árangur í frjálsum íþróttum, knattspyrnu og hestaíþróttum. „ Það verða sem sagt veitt verðlaun fyrir mætingu og mestu framfarir. Svo verður í boði ratleikur og aðrir leikir fyrir börn. Eftir það verður svo grillað og verðlaunaafhenging að því loknu.
Jón Egill segir að uppskeruhátíðin fari fram í Reykhólaskóla líkt og áður. „Það eru 60 til 80 manns sem iðka íþróttir hjá okkur, aðallega iðkendur á aldrinum sex ára til tvítugs. Það eru allir velkomnir á uppskeruhátíðina, þetta er alltaf skemmtilegur viðburður og okkur hlakkar mikið til.“ segir Jón Egill.
Aron Ingi
aron@bb.is