Um ráðningarferli bæjarstjóra

Daníel Jakobsson.

Í morgun var á dagskrá bæjarstjórnar ráðning bæjarstjóra okkar í Ísafjarðarbæ. Ljóst var á fundinum að ekki var einhugur um málið í bæjarráði og við sem fundinn sátum vorum ekki viss um hvort að við höfðum heimilid til að afgreiða málið í ósætti eða ekki, sem starfandi bæjarstjórn. Ég tel raun svo vera en fannst ekki tiltöku mál að fresta því um viku og leggja það fyrir aftur þá þannig að góðrar stjórnsýslu sé gætt.

Það er hinsvegar óskaplega leitt að þetta mál virðist stefna í einhvern leiðinlegan farveg. Hér í þessari frétt vísar oddviti Í-listans í mat (sem ég reyndar hélt að væri enn bundið trúnaði) frá ráðningarstofunni sem var með málið, sem á að sýna fram á að einhver annar er sá sem var ráðinn, hafi verið talinn hæfastur og gefur þar með í skyn að við höfum ekki ráðið hæfasta einstaklinginni.

Af því tilefni langar mig að taka fram að svo er alls ekki. Það mat sem oddvitinn vísar til er mat sem gert var á umsækjendum til ákveða hvaða 5 einstaklingar yrðu teknir í viðtöl. Eins og oddvitanum er kunnugt um var þá búið að fylla í sem nemur 33% af vægi heildar einkunnar. Það átti s.s. eftir að taka alla í símaviðtal, tala við meðmælendur og svo var að lokum þremur boðið að halda kynningu og koma í viðtal við alla bæjarstjórn.

Það mat sem vísað er í var s.s. tilbúið að 1/3 hluta og varla getur oddviti Í-listans haldið því fram í alvöru að einungis hafi átt að vera tekið til þeirra þátta sem fram komu í skriflegri umsögn. Af hverju í ósköpum tókum við þá þessa aðila í viðtal.

Jafnframt kom fram í auglýsingu að „leitað er að jákvæðum, heiðarlegum og kraftmiklum einstaklingi sem er reiðubúinn til að leggja sig allan fram í krefjandi starf“. Það hlýtur því að gefa augaleið að kynning, umsagnir og viðtöl vega mikið í heildarmati við ráðningu. Svo var líka raunin.

Að lokum.
Mér þykir mjög leitt að þetta mál sé komið í þennan farveg. Enn leiðinlegra finnst mér að einhverjir séu farinir að klæða þetta í einhvern kynjabúning. Það á ekki við nein rök að styðjast. Á sínum tíma réð ég þá konu sem komst lengst í ferlinu í starf bæjarritara. Ég hef átt að ég best veit mjög gott samstarf við hana og vona að ég muni eiga áfram.

Daníel Jakobsson

Oddviti Sjálfsstæðisflokks í Ísafjarðarbæ

DEILA