Vesturbyggð hefur samkvæmt skipulagslögum auglýst deiliskipulagsáætlun yfir landspildu úr landi Fremri-Hvestu í Arnarfirði. Deiliskipulagið nær til um 4 hektara spildu úr landinu, sem heyrir undir Vesturbyggð. Svæðið er rétt utan við Gölt og neðan undir svokallaðari Andahvilft. Samkvæmt auglýsingunni hjá Vesturbyggð þá stefnir eigandinn að því að reisa frístundahús á lóðinni en engin mannvirki eru fyrir á landinu. Þeir sem töldu sig eiga hagsmuna að gæta varðandi deiliskipulagsáætlunina gátu skilað athugasemdum á skrifstofu Vesturbyggðar til 6. ágúst. Stutt er liðið síðan þá svo ef það hafa borist athugasemdir þá hafa þær ekki verið birtar.
Það var Landform sem vann áætlunina fyrir Jón Bjarnason og Tómas Guðbjartsson lækni. Samkvæmt deiliskipulagsáætluninni er gert ráð fyrir einu frístundahúsi auk einnar til tveggja minni bygginga, svo sem gestahúsi, geymsluskúr eða álíka. Þá er ráðgert að flytja gamla íbúðarhúsið að Fremri-Hvestu, Gamla bæ, á lóðina og gera það upp sem frístundahús. Áætlunin nær yfir allt það sem þarf að vera í frístundahúsum og hvað ber að varast við byggingu þeirra og staðsetningu.
Áhugavert er að lesa að ekki er vitað um nokkrar fornminjar á svæðinu en þar sem fyrirhugað sé að flytja Gamla bæ frá Fremri-Hvestu og gera það upp, þá þarf að fá leyfi fyrir því frá Minjastofnun Íslands þegar deiliskipulagið hefur verið staðfest. Þetta er vegna þess að húsið er byggt árið 1903 og því meira en 100 ára gamalt en í lögum um menningarminjar segir: „Öll hús og mannvirki sem eru 100 ára eða eldri eru friðuð. Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunnar Íslands.“
Þá segir enn fremur í áætluninni að jafnvel þó að ekki sé vitað um fornminjar nú, þá skuli skýra Minjastofnun frá því ef einhverjar finnast. Þá er minnst á þjóðsögu sem tengist Andahvilft fyrir ofan landspilduna en hún er svohljóðandi:
„Ólafur hafði grætt mikið fé á hvalveiðum sínum og var stórauðugur maður. Sagt er, að hann hafi látið peninga sína í hálftunnur og grafið þær niður í hvilftinni fyrir innan Hvestuvaðal, sem kölluð er Andahvilft. Hafi hann mælt svo um, að þriðji maðurinn frá sér, sem bæri sitt nafn, skyldi finna peningana og eignast þá. Líka er sagt, að staðurinn, sem hann hafi grafið peningana á, hafi verið þannig valinn, að þaðan hafi bæði sézt á Rafnseyrarhyrnu og burstina á naustinu hans. Naustið var fyrir innan Hvestuvaðal uppi undir Andahvilftarbrekkum. Sagt er, að sjö dalakútar séu grafnir niður í Andahvilftinni og sé einn andi á hverjum kút til að gæta peninganna. Af öndum þessum dregur hvilftin sitt nafn og er kölluð Andahvilft eða Sjöundahvilft.“
Tómas er góðkunningi lesenda BB og þekktur fyrir baráttu sína fyrir verndun fossins Rjúkanda, annarra fossa og gegn fyrirhugaðari Hvalárvirkjun. Hugsanlega er það mikill áhugi hans á fagurri náttúru Vestfjarða sem drífur viljann til að byggja sumarhús í Arnarfirði, eða ásókn í gullið í þjóðsögunni, það er ekki gott að segja til um. Fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor og jafnvel enn fyrr en það hafði Tómas mikinn áhuga á að koma skoðunum sínum á framfæri við lesendur BB. Tómas hefur þó ekki viljað tjá sig um frístundahúsið sem hann hyggst reisa, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðamanna BB til að hafa samband við hann.
Sæbjörg
bb@bb.is