Veðurstofa Íslands hefur birt yfirlitskort og hnit yfir ísjaka og borgarísjaka sem eru úti fyrir Vestfjörðum og Ströndum. Á laugardaginn 5. ágúst sendu þeir frá sér tilkynningu þess efnis að rúmlega 300 metra langur og 70 metra breiður borgarísjaki virtist vera strandaður 19,5 sjómílur norðnorðaustur af Selskeri, (Sæluskeri) norðnorðaustur af Ströndum. Ísjakinn gæti verið hættulegur sjófarendum en sæist vel í ratsjá. „Hann er 315 metra langur, 70 metrar á breidd og 33 metrar á hæð, (samkvæmt mælingum Thorbens J. Lund skipherra sem notaði sextant til verksins)“ er skrifað hjá Veðurstofunni.
Borgarísjakinn er á stað 66°26,7‘N – 21°21,7‘V. Hann er ekki á hreyfingu og virðist því hafa strandað þarna, segir Veðurstofan. Ísjakinn ætti að sjást frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík þegar skyggni lagast, en þoka og þokuloft hefur verið nú síðustu daga við Húnaflóa. Athugað verður með þennan jaka frá veðurstöðinni um leið og skyggni lagast.
Á sunnudaginn bætti heldur í og Veðurstofan tilkynnti um mikið af hafís. Þeir skrifa jafnframt: „Á gervitunglamyndum er engin ísbreiða sjáanleg og hafísskortið því einkum byggt á korti dönsku veðurstofunnar frá 5. ágúst. Víða eru borgarísjakar í grennd við landið og sæfarendur því hvattir til að fylgjast vel með hafístilkynningum. Norðaustlægar áttir ríka á Grænlandssundi fram á miðvikudag, en síðan snýst í vestanátt og gætu ísjakarnir því áfram haldist nærri Vestfjörðum og Ströndum, á Húnaflóa og út af Skagafirði.“
Samkvæmt hnitunum sem gefin eru upp og flugskýrslu TF- SIF frá 8. ágúst eru að minnsta kosti þrír borgarísjakar á reki sem sjást vel á ratsjám og fjórtán ísjakar sem sjást ef til vill ekki allir jafn vel. Hnitin má skoða undir liðnum hafístilkynningar hjá Veðurstofunni.
Sæbjörg
bb@bb.is