Sundlaugin í orlofsbyggð Flókalundar vinsæl

Aðsókn í sundlaugina í orlofsbyggð Flókalundar hefur verið góð í sumar að sögn Margrétar Eyjólfsdóttur, staðarhaldara þar. Hún segir að aðsóknin sé að nálgast aðsóknina frá því í fyrrasumar þrátt fyrir afar leiðinlegt veður framan af sumri. „Margir sem koma hingað eru að leita að hellulauginni og koma mikið hingað og spyrja um hana. En þegar þau sjá laugina hér þá verða þau svo spennt að þau enda á að fara í báðar laugarnar. Sumir setja verðið fyrir sig, sem er nú ekki mikið eða 600 krónur fyrir fullorðinn. Íslendingunum finnst það reyndar ekki neitt en útlendingar tala um það.“ segir Margrét.

 

Margrét segir að aðsóknin í tjaldsvæðið í Flókalundi hafi tekið mikinn kipp seinnipart sumars þegar veðrið skánaði og hún nýtur góðs af því. „Það hefur verið minna um Íslendinga, allavega svona fyrri part sumars. En það hefur verið að aukast að undanförnu, maður sér það ef maður horfir á tjaldsvæðið þá hefur verið mikið meiri traffík þar seinnipart sumars og það skilar sér í laugina til mín. Laugin er góð og notaleg, það er notað sama vatn og rennur í hellulaugina. Svo eftir að gluggarnir voru settir hér í þá er fólk afar hrifið, þeir draga að og þetta eykur útsýnið yfir fjörðinn.“ segir Margrét að lokum.

 

Sundlaugin er opin frá klukkan 10:00 til 12:00 og frá 16:00 til 20:00 alla daga vikunnar og verður opið fram í miðjan september.

 

Aron Ingi

aron@bb.is

 

Myndakredit: Aðsend mynd frá Margréti Eyjólfsdóttur

Myndatexti: Sundlaugin er notaleg og er útsýnið frá henni gott yfir fjörðinn og dregur það að gesti að sögn staðarhaldara.

DEILA