Dreifnámsbrautin á Hólmavík er á vegum Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra (NFV) en sá skóli er með þrjár slíkar brautir. Ein er staðsett á Hólmavík, önnur á Hvammstanga og sú þriðja á Blönduósi. Eiríkur Valdimarsson, umsjónarmaður dreifnámsbrautarinnar á Hólmavík segir blaðamanni BB að þetta sé fimmta árið sem boðið er upp á námið á staðnum. Hann segir að munurinn á dreifnámi og fjarnámi er að í fjarnámi er hægt að hlusta á fyrirlestra þegar það hentar hverjum og einum að dreifnám sé í raun staðnám í gegnum fjarskiptabúnað.
„Það eru sem sagt allar kennslustundir á fyrsta og öðru ári í framhaldsskóla í beinni útsendingu á Hólmavík. Kennarinn á Sauðarkróki kveikir á fjarskiptabúnaði og kennir. Fólk getur verið í hvaða námi sem er og þetta gefur litlum sveitarfélögum sem hafa ekki framhaldsskóla tækifæri til að þurfa ekki að senda börn að heiman fyrir 18 ára aldurinn.“ segir Eiríkur.
Eiríkur segir að þrátt fyrir að fólki í Strandabyggð hafi fækkað, sem sé ákveðið vandamál útaf fyrir sig, þá sé það rosalega mikilvægt að hafa þetta skólastig gangandi. „Því það eru einhverjir sem hafa hætt í námi en koma svo og taka nokkra áfanga í öruggu umhverfi hér. Við státum okkur af því að við erum með leikskóla, grunnskóla og svo þennan framhaldsskóla hér á staðnum. Svo erum við líka með Háskólasetur og fræðslumiðstöð sem er rekin frá Ísafirði og er starfrækt hérna líka.“ segir Eiríkur.
Eiríkur segir að skráningin mætti vera betri, en reynslan sýnir að fólk ákveður oft í lok sumars að skella sér í smá nám. Hann segist því vonast til þess að skráningin taki einhvern kipp í lok sumars. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Eirík í síma 866-3569 eða í netfangið eirikur@fnv.is
Aron Ingi
aron@bb.is