Skaginn 3X hlýtur styrk frá Evrópusambandinu

SEASCANN myndgreiningarbúnaðurinn. Mynd: Skaginn 3X

Skaginn 3X hlaut nýverið styrk úr H2020 áætlun Evrópusambandsins sem nefnist „SME Intsrument grant phase 2.“ Styrkurinn mun gegna lykilhlutverki í áframhaldandi þróun á SEASCANN, byltingarkenndum myndgreiningarbúnaði sem tegundargreinir og stærðarflokkar fisk með sjálfvirkum hætti um borð í veiðiskipum.
Styrkurinn er afar eftirsóttur og var samkeppnin í ár gríðarlega hörð. Um það bil 1300 evrópsk fyrirtæki sóttu um styrkinn en einungis 64 styrkir voru veittir fyrir þær hugmyndir sem þóttu vera framúrskarandi.

Þörf fyrir nýsköpun
Aukin áhersla er lögð á hraða og skilvirka meðhöndlun á fiski um borð í veiðiskipum og er SEASCANN ætlað að auka afköst í flokkun og þannig viðhalda betur gæðum afurðarinnar. „Flokkun um borð í veiðiskipum er oftast handvirk og í sumum tilfellum sjálfvirk að hluta. Núverandi flokkunaraðferðir geta því verið tímafrekar og myndað flöskuhálsa sem geta rýrt gæði fisksins og leitt til tekjutaps fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi,“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X.

Vilja ýta undir sjálfbæran sjávarútveg
SEASCANN mun einnig ýta undir sjálfbærar veiðar. Með því að greina aflann strax um borð í veiðiskipum opnast möguleiki á rekjanleika afurðarinnar, frá veiðislóð til neytanda, ásamt því að kortleggja veiðislóðir enn frekar. „Búnaðurinn er ekki einungis hannaður til að greina stærð og tegund, heldur mun hann mögulega gera veiðiskipum kleift að senda yfirvöldum nákvæmar upplýsingar í rauntíma varðandi aflann,“ segir Ingólfur.
Hugbúnaðurinn hefur nú þegar verið settur upp í fimm veiðiskipum á Íslandi og mun Skaginn 3X nota styrkinn til að efla hugbúnaðardeild fyrirtækisins og þróa búnaðinn enn frekar.

„SEASCANN mun hafa gríðarlega jákvæð umhverfisáhrif sem og samfélagsleg áhrif. Þetta mun veita löndum í Evrópu tólin til að safna nákvæmum og áreiðanlegum upplýsingum um fiskveiðar,“ segir Ingólfur.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA