Seigla í íslenskum sjávarbyggðum

Nýr starfsmaður Vestfjarðastofu mun hefja störf á Þingeyri 1. sept.

Arnar Sigurðsson, bankastjóri Blábankans á Þingeyri var svo indæll að benda BB á afar áhugaverða doktorsritgerð um seiglu í íslenskum sjávarbyggðum. Arnar veitti jafnframt góðfúslegt leyfi til þess að umfjöllun hans um rannsóknina yrði birt hér á vefnum en hún fylgir hér á eftir í aðeins breyttri mynd:

Í sumar varði þýskur landfræðingur, Matthias Kokorsch, doktorsverkefni sitt um seiglu í íslenskum sjávarbyggðum við Háskóla Íslands. Þar leitast hann við að útskýra og greina örlög og jafnvel velta fyrir sér framtíð þorpa sem hafa byggt afkomu sína á sjávarútvegi. Mörg þeirra hafa í kjölfar breytinga í greininni orðið fyrir mikilli fólksfækkun, sem oft er sett i samhengi við breytingar á fiskveiðistjórnun og aðra þróun innan greinarinnar.

Seigla
Meginhugtak rannsóknarinnar, seigla, er notað til að skýra hvernig samfélögum tekst að bregðast við breytingum og lifa þær af. Þessar breytingar geta verið af náttúrulegum orsökum eða mannana verkum. Í umræðunni á Íslandi hafa deilur um kvótakerfið og byggðamál verið áberandi og myndað hugmyndafræðilega farvegi í áraraðir. Það getur því verið hollt að stíga skrefið út í heim og skoða hvernig ris og hnignun byggða í kjölfar breytinga hefur verið útskýrð.

Í þorpum þar sem stór hluti íbúa hafa flutt brott á fáum árum og atvinnulíf, þjónusta og slagkraftur hefur hjaðnað, er eðlilegt að horfa til blómaskeiða og reyna að endurskapa þær aðstæður og atvinnuhætti sem þá ríktu. Að byggja á eigin sérstöðu og hefð má að vissu leyti telja almenna skynsemi, en það getur líka verið tvíeggja sverð. Stefnumörkun fortíðar, innviðir og innri tengsl sem áður voru styrkur byggðar geta nefnilega í sumum tilfellum hamlað nýsköpun þeirra. Samfélög einfaldlega festast í ákveðnum farvegi sem þau komast ekki úr.

Þó að hvert samfélag sé einstakt og ekki sé til nein forskrift sem virki allstaðar, þá bendir Kokorsch á að ýmsar leiðir hafi verið þróaðar sem hægt er að horfa til við að snúa neikvæðri byggðaþróun við. Í Noregi hafi þrjár mismunandi, en ekki ósamrýmanlegar leiðir, verið skilgreindar til byggðaþróunar og seiglumyndunar:

1. Endurnýjun: Að uppfæra atvinnuvegi sem til staðar eru til þess að gera þá samkeppnishæfari.
2. Minniháttar endurskipulag: Að skapa fjölbreytni með nýjum en skildum atvinnuvegum.
3. Meiriháttar endurskipulag: Að skapa fjölbreytni með ótengdum og/eða nýstárlegum atvinnuvegum.

Endurnýjun og endurskipulag
Kokorsch skoðar þessar þrjár leiðir með tilliti til aðstæðna á Íslandi og rannsókna sinna á Raufarhöfn og Skagaströnd. Við þær miklu breytingar á fiskveiðikerfinu og einkavæðingu á aflaheimildum (þó auðlindin sé sameign í orði) hafi örlög byggðanna ekki verið í forgangi. Þó séu mótvægisaðgerðir við kerfið sem birtist í byggðakvóta og strandveiðikerfinu.
Greina má nokkrar efasemdir um byggðakvótakerfið í skrifunum. Að samfélög sem hafi farið illa út úr því að tapa aflaheimildum fái örlítinn hluta þeirra til baka séu kaldar kveðjur. Byggðakvóti sé vel meintur en geti í besta falli haldið aftur af neikvæðri þróun tímabundið, en í versta falli seinkað nauðsynlegri stefnubreytingu sem gæti verið óumflýjanleg. Til þess að nýtast sem skildi í efnahagslegri þróun byggðanna þyrfti kerfið að vera stórtækara, stöðugra og betur tvinnað saman við staðbundna atvinnuveitingu. Það sé talið óheppilegt að byggðaaðgerðir byggist á skammtíma plástrum frekar en langtíma stefnu.

Dæmi um minniháttar endurskipulag í íslensku samhengi sé aukin fjölbreytni í sjávarútvegi, sem nýti sér og byggi á þekkingu og menningu hefðbundinna sjávarplássa. Þetta geti t.d. birst í matarferðamennsku. Meiriháttar endurskipulag birtist á Íslandi fyrst og fremst í stóriðju og aukinni ferðamennsku, þó áhrifa túrismans gæti afar staðbundið utan háanna tímans. Menning og skapandi greinar hafa líka nýst að nokkru leyti til að koma til móts við hnignun atvinnuvega.

Brothættar byggðir
Kokorsch telur að í verkefninu Brothættar byggðir megi draga fram almenna gagnrýni á íslenska byggðastefnu. Verkefnið er útfært í smærri byggðum til að sporna við fólksfækkun, skekktri aldursdreifingu og áföllum í atvinnumálum. Undirliggjandi hugmynd verkefnisins um að valdefla viðkvæm samfélög og svara staðbundnum þörfum sé framsækin í sjálfu sér en framkvæmdin sé þó ekki nægjanleg þar sem fjármagnið sem verkefninu er skammtað sé ekki nægjanlegt til að hafa varanleg áhrif.

Seigla á Skagaströnd og Raufarhöfn
Athuganirnar á þorpunum tveimur eru áhugaverðar því þær draga fram kunnugleg einkenni úr öllum sjávarþorpum þó nokkur munur sé á þeim. Á Skagaströnd hefur fiskvinnsluhúsunum verið breytt í rými fyrir rannsóknir, smáiðnað og skapandi greinar, á meðan fáar hugmyndir utan sjávarútvegs og ferðamennsku séu uppi á Raufarhöfn. Ólík viðhorf kristallast í tilvitnunum í viðtöl við tvo karlmenn, annarsvegar frá Skagaströnd:

„Það er nauðsynlegt að búa sig undir framtíðina án þess að líta svo á að sjávarútvegur sé upphaf og endir, því hann getur ekki verið það. Sjávarþorp á Íslandi eru of mörg, það verða að vera færri sem byggja grundvöll sinn á því. Við vorum að vonast til þess að við yrðum ein af þeim sem lifðum af sem sjávarþorp, við vildum vera sjávarþorp. En okkur tókst það ekki. Við töpuðum þeim slag. Við vorum á vissan hátt seld út. Svo við þurftum að finna aðrar leiðir.“

Hinsvegar maður frá Raufarhöfn:

„Við höfum ekkert annað. Það er okkar sérstaða miðað við aðra staði. Við erum sjávarþorp.“

Kokorsch dregur einnig upp mun þorpanna hvað varðar stjórnsýslu, þar sem Raufarhöfn hafi sameinast Húsavík, sem er í 130 km fjarlægð. Hann telur það mikinn ókost fyrir staðinn og innviðin verri vegna þessa. Ekki hafi verið áhugi hjá heimamönnum að taka þátt í sveitarstjórnarmálum, og að sama skapi sé það ekki á dagskrá hjá sveitarfélaginu að færa pólitísk völd eða ákvarðanartökur nær íbúum Raufarhafnar. Í ritgerðinni er vitnað í viðtal við konu frá Raufarhöfn sem segir:

„Það háir okkur að fólkið sem stjórnar Norðurþingi kemur sjaldan hingað. Og nú vilja þau loka sundlauginni næsta vetur. Þau átta sig ekki á hversu mikils virði það er fyrir okkur að hafa hana opna allt árið. Þau horfa bara í tölfræðina. Þau eru nokkuð ósýnileg. Þegar við höfðum okkar eigin bæjarstjóra mætti fólk bara og ræddi við hann. Nú veit fólk ekki hvert það á að snúa sér, það nær ekki sambandi við fólkið sem er við stjórnvölinn“

Þessir molar úr rannsókn Kokorsch ná að sjálfsögðu ekki utan um verkið allt né dýpt fræðilegra álitamála skrifar Arnar Sigurðsson. Lesturinn kallar fram áleitnar spurningar. Eiga íslenskar sjávarbyggðir að reyna að endurskapa fortíðina, eða að minnsta kosti byggja á fortíðinni? Er ekki sanngjarnt að sjávarþorp sem fara illa úr kerfisbreytingum fái eitthvað á móti, s.s. í formi byggðakvóta? En hver eru langtíma áhrif þess á byggð að vera háð slíkum skriffinskuaðgerðum ef þær leiða ekki á endanum til sjálfbærs atvinnulífs, og gera þær sífellt háðari þessum ytri pennastrikum frá stofnunum og ráðuneytum? Er það hræsni að gefa í skyn að samfélög sem hafa í áratugi misst frá sér fólk, fjölbreytni og fjármagn nái aftur vopnum sínum með verkefnastyrkjum sem rista einir og sér grunnt og koma seint, eða er það kannski bara ágætis byrjun – skref í rétta átt, veltir Arnar fyrir sér.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA