Í dag klukkan 17 verður 421. fundur bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. Þar eru ýmis mál á dagskrá og meðal annars verður lögð fram samþykkt meirihluta bæjarráðs um ráðningu Guðmundar Gunnarssonar sem bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Einnig verður lagður fram til samþykktar ráðningarsamningur.
Eins og kunnugt er var ráðningu bæjarstjóra frestað á bæjarráðsfundi 13. ágúst vegna álitamála um það hvort bæjarráð hefði heimild til að samþykkja slíka ákvörðun eða hvort það væri eingöngu í höndum bæjarstjórnar. Þá kom einnig fram athugasemd frá Örnu Láru Jónsdóttur, oddvita Í-listans, þar sem hún gagnrýndi vinnulag við ráðningarferlið og taldi jafnvel líkur á að jafnréttislög hefðu þar verið brotin.
Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ sagði í aðsendri grein á BB að hæfasti einstaklingurinn hefði verið ráðinn. Í dag er svo komið að bæjarstjórnarfundinum þar sem þessi mál verða útkljáð.
Sæbjörg
bb@bb.is