Bæjarstjórnarfundur Ísafjarðarbæjar fór fram nú rétt í þessu en þriðja mál á dagskrá þar var ráðning bæjarstjóra, Guðmundar Gunnarssonar. Fyrstur tók til máls Marzellíus Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknarflokks en hann lýsti ágætum umsækjanda, Guðmundar Gunnarssonar. Daníel Jakobsson oddviti Sjálfstæðisflokks var næstur á mælendaskrá og hann hóf mál sitt á því að fara lauslega yfir ráðningarferlið við ráðningu bæjarstjóra. Eins og þegar hefur komið fram, þá var starfið auglýst af Capacent þann 23. júní og Ragnheiður Dagsdóttir var valin ráðgjafi frá Capacent. Sextán manns sóttu um starfið, þrír drógu umsókn sína til baka svo þrettán stóðu eftir. Áður en umsóknarfrestur rann út 9. júlí setti ráðgjafinn upp hæfnismat og á grundvelli þess mats og þeirra gagna sem fram komu í umsóknum voru sex einstaklingar boðaðir í viðtal af ráðgjafa Capacent. Niðurstaða þeirra var svo kynnt bæjarráði og upp úr því var ákveðið að kalla þrjá einstaklinga til viðtals með allri bæjarstjórn.
Daníel sagði jafnframt frá því að viðtölin hefðu farið fram 30. júlí á Ísafirði og fljótlega eftir þau hafi fulltrúar meirihluta fundað með ráðgjafanum og ákveðið næstu skref. Á þeim fundi segir Daníel að ráðgjafinn hafi gert grein fyrir mati sínu; „sem var ansi skýrt en hún taldi Guðmund Gunnarsson hæfastan til að gegna starfinu,“ sagði Daníel á bæjarstjórnarfundinum rétt áðan.
Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans tók næst til máls og byrjaði á því að taka undir með Marzellíusi og segja að Guðmundur væri afskaplega góður maður en málið snérist ekki um hann heldur ráðningarferlið og ekki álit þeirra á einstökum mönnum. Hún sagði jafnframt: „Það þarf ekki að koma neinum á óvart að við munum ekki samþykkja þessa ráðningu og ég gerði oddvitum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks grein fyrir því strax í ágúst því ég hefði ákveðnar athugasemdir við ráðningarferlið. Ekki síst vegna þess að tillaga meirihluta var ekki í takti við þær upplýsingar sem við í minnihlutanum höfðum, svo við töldum okkur ekki geta samþykkt þessa ráðningu.“
Arna Lára skýrði mál sitt enn frekar með því að benda á að tillagan að ráðningu Guðmundar væri ekki í samræmi við það hæfismat sem minnihlutinn hefði undir höndum þar sem menntun og reynslu umsækjenda var lýst af Capacent. „Við höfðum einnig áhyggjur af því að þessi ráðning gæti verið brot á jafnréttislögum. Ég hringdi í lögfræðing Jafnréttisstofu og fór yfir ferlið með honum og eftir það samtal var ég alveg viss í þeirri sök að þetta gæti verið brot á jafnréttislögum. Ég tala fyrst og fremst fyrir mig að það væri mikið persónulegt áfall fyrir mig ef ég fengi á mig þá ákúru á mig að hafa brotið jafnréttislög. Sem jafnréttissinna, sem feminísta og bara sem manneskju sem vill jafnrétti kynjanna,“ sagði Arna Lára.
Daníel tók aftur til máls og lýsti yfir vonbrigðum með oddvita Í-listans og sagði að hún færi ekki með rétt mál. Hann sagði: „Mig langar fyrst að koma inn á jafnréttisþáttinn í þessu. Þannig er að fjórir af fimm sviðsfulltrúum Ísafjarðarbæjar eru konur. Þannig að ef kona og karl hefðu verið jöfn í þessu þá hefði okkur borið að ráða karlinn. Þegar oddviti Í-listans leiðir að því líkur að hún hafi undir höndum gögn sem vísa í að ekki hafi hæfasti umsækjandinn verið ráðinn þá er það einfaldlega rangt. Þau gögn sem þú ert að vitna í áttu bara að sýna 33% af matinu,“ sagði Daníel ennfremur og beindi máli sínu til Örnu Láru.
Aðrir fulltrúar Í-listans bentu á að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hefðu þeir ekki fengið að sjá fleiri gögn sem styrktu þá ákvörðun að ráða Guðmund Gunnarsson til starfa sem bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Atkvæðagreiðslan fór því þannig að fimm fulltrúar studdu ráðningu Guðmundar Gunnarssonar sem bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, tveir voru á móti og tveir sátu hjá.
Sæbjörg
bb@bb.is