Nýtt skólaár hefst í Vesturbyggð

Það er mikil gleðistund að byrja í skóla. Mynd: Aron Ingi.

Grunnskólarnir í Vesturbyggð voru settir þriðjudaginn 21. ágúst síðastliðinn kl. 10:00. Kennsla hófst svo samkvæmt stundaskrá daginn eftir.

Patreksskóli var settur í Patreksfjarðarkirkju. Þangað voru allir velkomnir og foreldrar hvattir til að mæta með börnunum. Forráðamenn nemenda í 1. bekk voru svo beðnir um að fylgja skólakrökkunum í kennslustofu að setningu lokinni.

Bíldudalsskóli var settur í skólanum sjálfum. Þangað voru sömuleiðis allir velkomnir og foreldrar nemenda í 1. bekk voru beðnir að fylgja nemendum til stofu eftir skólasetninguna. Í Patreksskóla eru nærri 100 nemendur skráðir til náms en tæplega fjörutíu á Bíldudal. Tuttugu og sjö starfsmenn starfa við skólann á Patreksfirði en níu á Bíldudal. Þess má geta að tvær stöður eru auglýstar lausar í Patreksskóla, annars vegar umsjónarkennari á yngsta stigi og hinsvegar stuðningsfulltrúi á efsta stigi.

Skráning er hafin í skólamötuneyti, frístund, íþróttaskóla og tónlistarskóla á vefnum. Öll skráning fer nú fram á rafrænum eyðublöðum sem finna má á heimasíðunni og hér að neðan. Til að fylla eyðublöðin út og senda þarf rafræn skilríki eða Íslykil. Hægt er að fá aðstoð í ráðhúsi Vesturbyggðar.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA