Síðasta mót Sjávarútvegsmótaraðarinnar í golfi fer fram dagana 18. og 19. ágúst næstkomandi. Það er gríðarlega spenna fyrir þetta síðasta mót, sem verður tveggja daga mót og tvö þúsund stig eru í boði fyrir sigurvegarann. Það er því mikið í húfi og sagði Kristinn Þórir Kristjánsson formaður Gólfklúbbs Ísafjarðar blaðamanni BB að mótið í ár væri óvenju jafnt. „Við erum vanir að setja saman texta þar sem við útlistum hverjir eiga góða möguleika og hvar baráttan er mest og sendum á alla til að ýta fólki af stað til að vera örugglega með. Síðasta mótið er 18. og 19. ágúst, HG mótið og þá verður lokaverðlaun veitt fyrir alla mótaröðina og líka HG mótið. Þetta verður mjög gaman, það verður boðið upp á súpu í hádeginu á laugardaginn og á sunnudeginum boðið upp á mat.“
Kristinn segir að keppnin í ár hafi verið óvenju jöfn. „Þetta eru sjö mót allt í allt og er yfir sumarið. Við erum ekki alveg búin að setjast yfir möguleikana. Nú eru fleiri stig í boði í síðasta mótinu því þetta verður tveggja daga mót. Þannig að sumir hafa hreinlega ekki efni á að sleppa að vera með því það eru 2000 stig í boði, þannig að þetta verður mjög spennandi í flestum flokkum. Í unglingaflokki er Jón Gunnar Shiransson er einn besti unglingurinn. Hann á stutt í að vera jafn góður og kallarnir þrátt fyrir að vera bara 12 ára.“ segir Kristinn Þórir að lokum.
Aron Ingi
aron@bb.is