Hver annar en Elfar Logi gæti komið slíkri hátíð sem Act alone á koppinn og látið hana ganga í 15 ár? Það er löngu ljóst að atorkusemi þessa manns er engu lík og við erum heppin að eiga hann hér fyrir vestan. Act alone hefur staðið yfir síðan á fimmtudaginn 9. ágúst og lýkur í kvöld þann 11. ágúst. Dagskráin er ótrúlega þétt og mikil og ótrúlegt ef allir geta ekki fundið eitthvað við sitt hæfi. Aðgangur að öllum viðburðum er ókeypis þökk sé hjálp styrktaraðila.
„Þetta gengur allt eins og í ævintýri,“ segir Elfar Logi í samtali við BB. „Við erum með skothelda þriggja manna áhöfn sem starfar hér á bak við tjöldin, það eru fleiri gestir en í fyrra og svo er langur og góður dagur í dag.“
Elfar Logi segir að hátíðin hafi byrjað fyrir fimmtán árum sem þrír einleikir á þremur dögum en nú séu þetta orðnir yfir tuttugu viðburðir á þremur dögum. „Það eru tuttugu og tveir viðburðir núna og hafa aldrei verið svona margir,“ segir Elfar Logi. „Svo það er kannski tími á að bæta við degi,“ segir hann og hlær. „Það komu miklu fleiri umsóknir um að vera með en við gátum tekið við svo kannski bætum við bara í og tökum allan ágúst í þetta,“ segir Elfar hress, en þeir sem hafa talað við hann vita að það samtal er aldrei leiðinlegt og fljótt að verða að miklu ævintýri.
Í dag er til dæmis hægt að sjá einleikinn Vera og vatnið en það er barnasýning sem hefst kl 13 í félagsheimilinu.
Klukkan 14:30 við félagsheimilið er annað barnaleikrit sem heitir Ebbusögur og klukkan 16 á sama stað er leikverkið Fimmþúsundkallinn.
Klukkan 17 er svo komið að tónleikhúsverkinu Orðin, en það er verk fyrir einn flytjanda sem er á mörkum leiklistar og tónlistar og sem lýtur hvorki lögmálum óperunnar eða söngleiksins.
Um kvöldmatarleytið eða kl. 19 er Kristín Ómarsdóttir með upplestur í boði Vestfirska forlagsins og klukkutíma síðan verður leikritið Griðastaður sýnt.
Klukkan 19:55 verður tilkynnt hver bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar er, og dagskráin heldur svo áfram fram yfir miðnætti og hana er hægt að kynna sér hér.
„Það komast allir á viðburðina sem vilja því það er ókeypis inn á allt og þegar stólarnir eru búnir þá situr fólk bara á gólfinu eða liggur, eftir því hvað það vill,“ segir Elfar Logi. „Í gærkvöld var gífurlegur fjöldi og það var staðið langt fram í anddyri á félagsheimilinu og langt fram á götu. Það er fullt á öllum viðburðum.“
En leyndarmálið á bak við Act alone eru íbúar Suðureyrar. Það væri ekki hægt að halda svona hátíð nema í svona einstöku þorpi eins og Suðureyri er því fólkið hérna eru svo svakalega góðir gestgjafar. Þau umvefja bókstaflega hátíðina,“ segir Elfar Logi þakklátur að lokum og við hvetjum alla til að skreppa á Suðureyri og kíkja á viðburði Act alone.
Sæbjörg
bb@bb.is