Körfuknattleiksdeild Vestra semur við Nebojsa

Nebojsa Knezevic og Ingólfur Þorleifsson, formarðu Kkd Vestra við undirritun samningsins.

Í gær gekk Körfuknattleiksdeild Vestra frá nýjum þriggja ára samningi við Nebojsa Knezevic en frá þessu er sagt á síðu Vestra. Þetta eru mikil gleðitíðindi enda er vart hægt að hugsa sér betri liðsmann en þennan serbneska Vestfirðing sem hefur búið á Ísafirði undanfarin fjögur ár.

Samningurinn við Nebojsa nær einnig yfir þjálfun. Líkt og síðasta vetur verður hann Yngva Gunnlaugssyni til halds og traust á komandi tímabili sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks auk þess að sinna þjálfun yngri flokka.

Það þarf ekki að fjölyrða um hæfileika Nebojsa á körfuboltavellinum. Hann er fagmaður fram í fingurgóma og hefur verið meðal bestu leikmanna 1. deildarinnar undanfarin ár. Á síðasta tímabili var Nebojsa frábær og raðaði hann sér í efstu sæti í öllum í helstu tölfræðiþáttum leiksins. Hann var stoðsendingakóngur deilarinnar með 7,3 stoðsendingar að meðaltali í leik, skoraði 23,7 stig og tók 7,3 fráköst sem útleggst í 26,9 framlagspunkta. Framlag hans utan vallar er þó ekki síður mikilvægt hvort sem það er á sviði þjálfunar eða í öðru félagsstarfi deildarinnar.

Það er mikið ánægjuefni fyrir Vestra að tryggja sér starfskrafta Nebojsa næstu þrjú árin, að minnsta kosti, og hlakkar stjórn Körfuknattleiksdeildarinnar til áframhaldandi samstarfs við hann.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA