Komnir í átta liða úrslit á EM

Körfuknattleikslið U16 eru komnir í átta liða úrslit. Mynd: Svali Björgvinsson.

Landsliði U16 í körfuknattleik karla gengur mjög vel á Evrópumóti í Bosníu. Ágúst Björgvinsson þjálfari þeirra segir að liðið sé komið í 8 liða úrslit en á eftir, klukkan 16:45 að íslenskum tíma mæta þeir heimamönnum í Bosníu og þá ræðst það hvort liðið heldur áfram eða spilar um 5-8 sæti á næstu tveimur dögum. Til að komast svona langt þurftu drengirnir að sigra Finnland, Ungverjaland, Búlgaríu og Kýpur sem þeir gerðu með glæsibrag og hafa einungis tapað fyrir Póllandi í riðlinum en lið þeirra endaði efst. Bosnía vann svo alla sína leiki í D-riðli svo leikurinn á eftir verður æsispennandi. Áhugasamir geta fylgst með honum hér.

Bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir eru í liðinu og þeir eru staddir í Bosníu ásamt foreldrum sínum og yngri systur. Birna Lárusdóttir móðir drengjanna segir að þetta sé besti árangur U16 í lengri tíma og ferðin sé í alla staði mjög góð. „Það eru mikil forréttindi bæði fyrir tvíburana og okkur að fá að vera hluti af svona verkefni,“ segir Birna. „Samheldni strákanna vekur verðskuldaða athygli og andinn í hópnum er frábær sem og þjálfarateymið. Svo er gaman að því að sjúkraþjálfarinn hann Gunnlaugur Jónasson er frá Ísafirði, barnabarn hins eina sanna Gulla í Bókhlöðunni.“

Fjölskylduhópurinn með liðinu í Bosníu. Mynd: Svali Björgvinsson.

Birna segir að hitinn sé mikill í Bosníu, um og yfir 30 stig alla daga og strákarnir hafi þurft að aðlagast því. Þeir geri heldur ekki mikið meira en að æfa, spila og hvíla sig, enda sé það mikið álag að spila 8 leiki á 10 dögum. „Það fylgja svo foreldrar og fjölskyldumeðlimur með nánast öllum strákunum og sá hópur er mjög samstilltur,“ segir Birna og þetta er greinilega mikið ævintýri fyrir alla fjölskylduna frá Ísafirði.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA