Knattspyrnulið karla í Vestra átti flottan leik í gær á móti Völsungi sem þeir sigruðu 2-0.
Völsungur er þannig dottinn í 3. sæti með 27 stig en Vestri er kominn á toppinn og líka með 27 stig. Leikmenn tóku töluverðan tíma í að finna sig framan af leiknum en þegar Vestramenn áttuðu sig spiluðu þeir vel og lágu harðir í sókn. Þeir áttu flottar atlögur að marki Völsunga sem fékk ekki mörg tækifæri til að komast yfir völlinn að marki Vestra. Það voru margir áhorfendur sem mættu til að styðja sitt lið en það hefði mátt heyrast mun betur í þeim framan af, þó þeir hefðu líka bætt aðeins í þegar leið á leikinn. Töluverð óánægja var með dómarann sem var frekar spjaldaglaður en þó heyrðist enn meira í fólki sem kallaði að línuverðinum en önnur hendin á honum, sú sem dæmdi með Völsungum, virtist virka mun betur en Vestra hendin.
Mótlætið beit þó ekkert á Vestra en þetta er fjórði sigur þeirra í seinustu fimm leikjum og alls hafa þeir unnið átta leiki og gert þrjú jafntefli af þeim fjórtán leikjum sem búnir eru í deildinni.
Fyrsta mark leiksins á móti Völsungi í gær kom á 43 mínútu en þá skoraði Joshua Ryan Signey glæsilegt mark af töluverðu færi. 2 mínútum áður hafði Sergine Fall í Vestra gerst brotlegur og fengið gula spjaldið, Hafþór Atli Agnarsson fékk samskonar spjald á 51 mínútur og James Mack á 63 mínútu. Þetta varð þó bara til að hvetja vestfirska liðið og á 85 mínútu skoraði Pétur Bjarnason flott mark og sigur Vestra var þannig í höfn.
Næsti leikur karlaliðs Vestra í 2. deild er laugardaginn 11. ágúst en þá mæta þeir Aftureldingu á Varmárvelli.
Sæbjörg
bb@bb.is