Það eru ekki öll fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum stór og með tölur sem hlaupa á mörgum núllum. Gísli Jón Kristjánsson, sem er með fiskeldi í Önundarfirði er til dæmis einn þeirra sem gæti nánast talist vera einyrki. Þeir eru þó fimm alls sem vinna saman í eldinu hjá honum og þegar blaðamaður BB hitti á Gísla Jón á grundinni á Flateyri þá voru tveir Færeyingar að setja saman nýja kví fyrir hann.
„Þetta eru kvíar sem standast norska staðalinn, sem er krafa um að við sem erum í eldinu uppfyllum,“ segir Gísli Jón þegar blaðamaður spyr hvort þetta sé eitthvað merkileg ný kví. „Þetta kemur frá Færeyjum og það er Vónin OKJ sem selur mér þetta og Færeyingar sem eru að setja þetta saman, miklir snillingar,“ segir Gísli Jón og brosir breitt, enda er alltaf gaman þegar nýjir hlutir eru að gerast og menn að færa út kvíarnar. Bókstaflega.
Nýja kvíin er stærri en sú sem hann er með en þær eru gamlar og einungis 60 metrar að þvermáli. Sú nýja er 90 metrar, sem þykir ekki stórt segir Gísli Jón því „menn eru með 160 metra kvíar annarsstaðar.“ Hann reiknar með að slátra 150 tonnum af fiski í vetur og hefur gert það á Flateyri og selt vöruna á markað. „Ég er með 1200 tonn í umsóknarferli því núna er burðarþolsmatið komið í firðinum og það er 2500 tonn. Ég er að undirbúa það að stefna á það í framtíðinni,“ segir hann stórhuga en þó hógvær. „með því að sækja um og ná mér í seiði en þetta er nýtilkomið. Ég var að bíða eftir burðarþolsmatinu því nýju lögin sem eru væntanleg á næsta ári segja að ég þyrfti að fara í fegurðarsamkeppni við aðra og það færi uppboðsleið og ég veit ekki hvað og hvað. En það er komið fyrir horn í bili allavega. Og ég stefni á 2500 tonn í framtíðinni.
Til stóð að setja kvínna á flot í gærkvöld en sú spá rættist ekki. Gísli Jón reiknar þó með að setja hana á flot núna í kvöld, á flóðinu fræga eins og hann orðaði það og kannski færi kvíin bara sjálf á flot og sigldi burt með fiskikörunum, fullum af sæbjúgum.
Sæbjörg
bb@bb.is