Innbrot í Hólabúð í Reykhólahreppi

Hjónin Ása Fossdal og Reynir Þór Róbertsson sendu frá sér tilkynningu í dag um að síðastliðna nótt hafi verið brotist inn í verslunina Hólabúð sem þau reka. Peningum, tóbaki og sjóðsvélinni hafi verið stolið og er því tjónið umtalsvert.

Þau vilja koma á framfæri að allir sem geta veitt einhverjar upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við þau Reyni og Ástu eða við lögregluna á Hólmavík. Fram kemur í tilkynningu þeirra hjóna að ef sá sem framdi þennan þjófnað sjái umrædda tilkynningu vilja þau biðja þann sama vinsamlegast um að skila sjóðsvélinni við fyrsta tækifæri. Segja þau að viðkomandi geti sett vélina á pallinn hér hjá versluninni.

Vegna innbrotsins var lokað í versluninni hjá þeim Reyni og Ásu í dag. Þess má geta að þau hjón opnuðu veitingastaðinn 380 Restaurant um miðjan júní mánuð síðastliðinn.Veitingastaðurinn er staðsettur í sama húsnæði og Hólabúðin og hefur aðsókn verið mjög góð í sumar, svo mikil að þau hafi þurft að vísa gestum frá, líkt og kom fram hér á BB fyrr í sumar. Einkenni þeirra er að vera með mat úr héraði og krafa þeirra sjálfra er að vera bara með úrvalshráefni og sögðu þau í samtali við blaðamann BB að það skipti öllu máli.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA