Hver einasta rödd skiptir máli

Bryndís Friðgeirsdóttir við kertafleytinguna í gær. Mynd: Jóna Benediktsdóttir.

Í gær kom hópur fólks saman í fjörunni í Neðstakaupstað á Ísafirði og fleytti kertum til að minnast þeirra sem létu lífið eða örkumluðust 6. og 9. ágúst 1945, þegar Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjum yfir borgirnar Hiroshima og Nagasaki í Japan.
Yfir 200 þúsund óbreyttir borgarar létu lífið í þessum árásunum. Tugir þúsunda strax við sprengingarnar, aðrir dagana og vikurnar á eftir. Að auki hefur fjöldi fólks árin á eftir misst heilsuna eða látist úr sjúkdómum eins og geislaveiki, krabbameini og genagöllum sem má rekja til sprengjanna.

Guðfinna Sigurjónsdóttir hafði frumkvæði af því að ná hópnum saman og Bryndís Friðgeirsdóttir flutti stutt ávarp og sagði meðal annars:

,,Það er víðs fjarri að kjarnorkuógnin sé úr sögunni því að minnsta kosti níu ríki eiga gereyðingavopn sem þau telja mikilvægt að eiga ef…. ef hvað? Ef þau þyrftu nauðsynlega að beita þeim á óbreytta borgara með þeim skelfilegu afleiðingum sem enginn sér fyrir endann á? Og þessi kjarnorkuvopn eru miklu, miklu öflugri en þau sem notuð voru til að myrða og limlesta fólk í Hírosíma og Nagasakí.“

„Sem betur fer eru lang flestar þjóðir heimsins ekki með áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Fjöldi ríkja hefur hvatt til þess meðal annars á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að kjarnorkuvopnum verði eytt og þau alfarið bönnuð. Því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki kosið að slást í þann hóp. En Ísafjarðarbær ásamt öðrum sveitarfélögum í landinu hefur samþykkt yfirlýsingu um kjarnorkuvopnalaust sveitarfélag og skorað á önnur sveitarfélög í heiminum að gera slíkt hið sama. Þúsundir borga og bæja í heiminum hafa einnig friðlýst sína heimabyggð fyrir kjarnorkuvopnum þó viðkomandi stjórnvöld styðji framleiðslu og eign slíkra stríðstóla. Með því leggja íbúarnir sitt lóð á vogarskálar til að stuðla að afvopnun og friði í heiminum. Afstaða hvers einasta sveitarfélags skiptir máli, rödd hvers einasta íbúa skiptir máli. Þess vegna er mikilvægt að við komum saman í Neðsta og fleytum kertum til að minnast þessara hræðilegu árása. Hver einasta rödd skiptir máli hvar sem er í heiminum, líka rödd okkar hér í Neðstakaupstað á Ísafirði“ sagði Bryndís Friðgeirsdóttir.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA