Fyrir þau sem komast ekki suður á morgun, föstudaginn 31. ágúst, en langar samt að hlusta á fyrirlestur, þá mun Dr. Stephen Hawkins flytja erindi um endurheimt og langtíma sveiflur í stofnum fjöruhettu (Patella) og þara í kjölfar þess að olíuflutningaskipið Torrey Canyon fórst við suðvestur strönd Bretlands árið 1967. Málstofunni er streymt á Youtube og þess vegna geta allir áhugasamir fylgst með.
Erindið er flutt á ensku og hefst klukkan 12:30 en það fjallar um það þegar olíuskipið Torry Canyon steytti á skerjum skammt undan suðvestur strönd Bretlands árið 1967. Olíuslysið er eitt það versta í sögu Bretlands og hafði víðtæk, langvinn og alvarleg áhrif í fjöru og í sjó. Fyrirlesturinn lýsir niðurstöðum langtíma mælinga á þeim fjörum sem urðu hvað verst úti vegna olíuslyssins. Náttúrulegar stofnveiflur fjöruhettu og þara náðu fyrst eðlilegu jafnvægi tæpum tveimur áratugum eftir slysið. Meðal annars hefur komið fram að olíuleysandi efni sem notuð voru í kjölfar slyssins virkuðu neikvætt og hægðu á endurheimt lífríkisins um mörg ár.
Stephen Hawkins sem heldur fyrirlesturinn er vistfræðingur og prófessor emerítus við raunvísindadeild háskólans í Southampton. Hann var sæmdur prófessorsstöðu 1995 en vann einnig til margra ára á hafrannsóknastöðinni í Plymouth í Bretlandi og veitti þeirri stofnun forstöðu í átta ár. Hann hefur verið í samstarfi við íslenska vistfræðinga í nokkra áratugi um rannsóknir á lífríki fjara, nú síðast með Karli Gunnarssyni og Lilju Gunnarsdóttur á Hafrannsóknastofnun.
Sæbjörg
bb@bb.is