Helgina 11.-12. ágúst síðastliðinn var haldin fjölskylduhelgi í friðlandinu Vatnsfirði, þar sem boðið var upp á fjörubingó, fræðslu, náttúruskoðun og fjölskyldugöngur. Veðrið lék við viðstadda og var mætingin með besta móti enda Vatnsfjörður og nágrenni einstaklega fallegur áfangastaður.
Um hádegisbilið á laugardeginum var boðið upp á fjörubingó með landverði og fjölskyldugöngu. Landvörður sagði frá náttúrunni í fjörunni og leiddi göngu inn að botni fjarðarins og til baka. Allir krakkar fengu „bingóspjald“ og gátu hakað við það sem fyrir augu bar og fengu viðurkenningarskjal fyrir framlagið. Hægt var svo að skella sér í laugina að lokinni göngu.
Eftir það var gengið í Surtarbrandsgil með landverði. Sýningu um Surtarbrandsgil í gamla prestbústaðnum á Brjánslæk var skoðuð en á sýningunni er mögulegt að skoða fallega plöntusteingervinga sem fundist hafa í gilinu. Að sýningu lokinni var gengið í gilið þar sem fólk reyndi að sjá fyrir sér hvernig gróðurinn var á Íslandi fyrir 12 milljónum ára.
Eftir Surtarbrandsgilið var sögustund við Gíslahelli með landverði. Gísli Súrsson var mikill kappi sem var lengi í útlegð og faldi sig fyrir óvinum sínum m.a. í Vatnsfirði og nágrenni hans. Á Hörgsnesi er hellir sem er nefndur eftir Gísla þar sem talið er að hann hafi falið sig. Gestir heyrðu því af ævintýrum Gísla og krakkar fengu að skríða ofan í Gíslahelli sem er lítil og óvistleg hola en frábær felustaður.
Á sunnudeginum var svokölluð barnastund þar sem horft var til fortíðar með Ingu Hlín Valdimarsdóttur safnstjóra á Minjasafninu að Hnjóti. Inga fræddi gesti um leiki barna fyrr á tíðum og sýndi muni úr fórum safnsins sem tengjast þeim. Að því loknu var farið í leiki.
Svo var boðið aftur upp á göngu í Surtarbrandsgil með landverði líkt og á laugardeginum. Dagskránni lauk svo með fjölskyldugöngu með landverði. Genginn var auðveldur hringur við rætur Þingmannaheiðar þar sem landvörður fræddi gesti um tré, runna og aðrar plöntur sem finna má í friðlandinu en það er rómað fyrir gróðursæld sína. Landvörður var með lúpur meðferðis fyrir þá sem vildu skoða gróðurinn í stækkaðri mynd.
Þessi viðburður tókst afar vel í alla staði og er óhætt að hrósa landvörðum og þátttakendum fyrir framgöngu sína og er óskandi að boðið verði upp á viðburði sem slíka árlega.
Aron Ingi
aron@bb.is