Fiskikör flutu um allan fjörð

Rómantísk sunnudagssigling hjá sæbjúgukörunum.

Lögreglan á Ísafirði og Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri voru kölluð út á tíunda tímanum í kvöld vegna þess að fiskikör voru farin að sigla inn um allan Önundarfjörð. Ástæðan er sú að vegna hönnunargalla á bryggjusporðinum flæðir yfir hann á flóði. Í kvöld var svo stórstreymt þannig að fiskikör af Friðriki Sigurðssyni ÁR 17, sem stóðu á bryggjunni, tóku út. Friðrik Sigurðsson er á sæbjúgnaveiðum úti fyrir firðinum og áhöfnin hefur líklega ekki vitað af þessum slæma galla á bryggjunni, vegna þess að heimamenn hafa lært það af slæmri reynslu að setja körin og annað dót innar á bryggjuna.

Tæplega tuttugu kör flutu út en snarræði lyftaramannsins náði að bjarga restinni frá siglingu. Óhemju stórstreymt var í kvöld svo mildi var að fleira drasl skyldi ekki sigla á brott. Lögreglan á Ísafirði mætti svo á staðinn og hafði samband við björgunarsveitina, sem fór á karaveiðar á hinum ýmsu fleyum. Veiðarnar gengu greiðlega og voru öll kör komin í land um klukkutíma síðar. Station bíll stóð einnig á bryggjunni og var sjórinn kominn yfir mið dekk á honum. Sem betur fer sigldi hann þó ekki af stað því enginn vissi hver bílstjórinn var.

Þarna á sjórinn helst ekki að vera en það hefur komið fyrir að það flæði inn í bryggjuhúsið.
Það eru margir góðir menn og konur í lögreglunni á Ísafirði.
Sjómenn á Flateyri lánuðu báta sína fyrir karaveiðar. Mynd: Magnús Magnússon.
Þessir náðu einum stórum og þurftu ekki að synda á eftir honum. Mynd: Magnús Magnússon.
Bílstjórinn á lyftaranum bjargaði því sem bjargað varð af bryggjunni. Mynd: Alla Kor.
Sæbjúgu á Flateyrarhöfn.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA