Bjartmar Guðlaugsson spilar á Vagninum á laugardagskvöld

Laugardagskvöldið 4. ágúst heldur Bjartmar Guðlaugsson tónleika á Vagninum, Flateyri. Þar mun hann flytja öll sín þekktustu lög og er af nógu að taka. Tónleikarnir hefjast kl. 22.30. En að sjálfsögðu er töluvert meira en það um að vera á Vagninum. Á föstudagskvöld verða Gullfoss og Geysir með geysivinsæla plötusnúðatónlist og á laugardaginn fyrir Bjartmar fara allir í Holt að byggja sandkastala. Á sunnudaginn er svo opið á Vagninum og fiskisúpa í boði á meðan að Íslandsmótið í Kubbi fer fram á grundinni til móts við Vagninn og um kvöldið verður hægt að twista á bingó og balli með Óla Hirti og Natalie. Eitthvað fyrir flesta á Vagninum um Versló.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA