Á 503. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar var lagt fram bréf Sigurðar Ásbjörnssonar fyrir hönd Skipulagsstofnunar ásamt frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum 5800 tonna framleiðsluaukningar Arctic Sea Farm í Dýrafirði.
Þar var óskað eftir umsögn Ísafjarðarbæjar og með vísan í viðeigandi reglugerðir telur skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar, að fullnægjandi sé gert grein fyrir framkvæmd í frummatsskýrslu Arctic Sea Farm. Nefndin tekur jákvætt í áform Arctic Sea Farm, um aukna framleiðslu á laxfiski í Dýrafirði úr 4200 tonnum í 10.000 tonn á ári.
Samkvæmt mati Hafrannsóknarstofnunar er Dýrafjörður talinn þola eldi á allt að 10 þúsund tonnum og er súrefnisbúskapur fjarðarins jafnvel talinn þola allt að 40% meira eldi en það. Áhrif uppsöfnunar næringarefna frá eldinu eru talin hafa mjög takmörkuð áhrif á botndýralíf á svæðinu, en með umhverfisvöktun er ætlun framkvæmdaraðila að fylgjast með mögulegum áhrifum á það og verða kvíaþyrpingar færðar til ef talið verður tilefni til. Í Dýrafirði og í nágrenni hans eru engar laxveiðiár og er því samkvæmt áhættumati Hafró engin áhætta fyrir villta laxfiskstofna af hugsanlegum strokufiski frá eldinu.
Aðkoma skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar og álit þetta er byggt á þeirri staðreynd að bæjarfélagið og íbúar þess hafa hagsmuni af því að nýting lands og nærliggjandi sjávar, sé í sátt við umhverfi og íbúa. Jafnframt er mjög mikilvægt að nærliggjandi auðlindir séu nýttar með einhverjum hætti, til hagsbóta fyrir samfélagið. Í fjölda ára hafa skipulagsnefnd og bæjarstjórn ítrekað það álit að brýn þörf sé á að strandsvæði séu skipulögð og að skipulagsvaldið verði í höndum sveitarfélaganna. Það álit er hér ítrekað.
Sæbjörg
bb@bb.is