7 kg af leir í felgunum eftir akstur um Dynjandisheiðina

Þjóðvegur á Vestfjörðum.

Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar fór dagsferð til Ísafjarðar frá Bíldudal á dögunum til að sinna ýmsum erindum. Henni fannst upplagt að drífa sig á meðan fært er þar á milli en sá svo fljótt eftir því sökum slæms ástands vegarins yfir Dynjandisheiði. Hún deildi myndum og texta á Facebook síðu sinni þar sem hún segist hafa verið pirruð fyrir þessa tilteknu ferð þar sem hún hafi verið að koma að sunnan og leiðin yfir Ódrjúgs- og Hjallahálsa var ansi leiðinleg. En það hafi þó ekki verið neitt samanborið við Dynjandisheiðina sem Marsibil segir að hafi nánast verið ófær sökum drullu.

Við gefum Marsibil orðið. „Dynjandisheiðin var samt eiginlega ófær, þó haustið sé ekki alveg komið. Hún var ófær vegna drullu. Þegar ég var búin að skola leirinn sem ég tók af Dynjandisheiðinni af bílnum áðan, sem mér finnst afspyrnu leiðinlegt verkefni sem ég neyðist til að sinna ætli ég mér að vera akandi. Þá átti ég eftir að hreinsa leirinn úr felgunum svo bíllinn hristist ekki og skjálfi. Ég fann pönnukökuspaða, lítið notaðan og skóf tæp sjö kíló af leir úr felgunum – já ég sem sagt vigtaði drulluna af Dynjandisheiðinni.“

Iða Marsibil endar erindi sitt á að furða sig að enginn hafi opnað bílaþvottastöð á sunnanverðum Vestfjörðum og segist munu verða fastakúnni þar ef svo færi. Einnig spyr hún sig að því hvort það sé ekki örugglega árið 2018 og furðar sig á ástandi vega á svæðinu. Hún sagði blaðamanni BB að bílar fólks á svæðinu liggi undir skemmdum við að aka um vegina þarna. „Það er algjör lágmarkskrafa að vera á fjórhjóladrifnum bíl og svo erum við að keyra yfir fjallvegi sem er erfiðir yfirferðar og það er ekki nóg heldur er vegurinn ónýtur. Ég er bara svo ótrúlega þreytt á þessu og svo er bara þögn frá yfirvöldum.“ segir Iða Marsibil að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA