Vestri mætir Kára á laugardaginn kl 16

Knattspyrnulið karla í Vestra mætir liði Kára á laugardaginn.

Næsti leikur knattspyrnuliðs karla í Vestra er við lið Kára frá Akranesi. Kári hefur átt gott mót hingað til og liðið er sem stendur í 2. sæti með 21 stig. Vestri er í því 5. með 17 stig. Ef svo fer að Vestri sigrar Kára þá færir það liðið enn nær toppbaráttunni og um leið gæti Vestri minnkað bilið í Káramenn niður í 1 stig. Það myndi líka þýða að baráttan yrði í algleymingi fyrir síðari hluta mótsins og Vestri, sem átti erfiða byrjun, gæti allt í einu átt möguleika á því að berjast um sæti í 1. deild að ári.

Vestramenn fóru suður með sjó um síðustu helgi og mættu þar Þrótti frá Vogum.
Fyrir leikinn var Þróttur með 18 stig og í öðru sæti deildarinnar en Vestri vann öruggan sigur í hörkuleik og fóru leikar 1-0 fyrir Vestra. Það dugði til að koma Þrótti niður í 3. Sæti. Það var JC Mack sem skoraði sigurmarkið á 79. mínútu eftir góðan undirbúning frá Pétri Bjarnasyni. Knattspyrnuliði Vestra hefur gengið mjög vel undanfarið en þeir hafa unnið síðustu fjóra leiki sína með markatölunni 10-0.

Vestraliðið varð þó fyrir miklu áfalli í leiknum þar sem Josh Signey handarbrotnaði og mun því ekki spila meira með liðinu i sumar.

Toppbaráttan er hörð enda eru bara átta stig frá 1. sæti deildarinnar niður í það sjöunda. Efsta liðið með 24 stig en það sjöunda er með 16. Það þarf því að halda vel á spöðunum í þeim leikjum sem eftir eru. Tapist þessi leikur hins vegar er ekki öll nótt úti en Vestri þyrfti að girða sig vel í brók fyrir lokabaráttuna. Hópurinn er aftur á móti mjög vel mannaður og gæti því vel gert gott mót. Leikur Vestra við Kára á Olísvellinum á laugardaginn hefst klukkan 16.

 

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA