Tónleikar Dúó Atlantica á vegum Snjáfjallaseturs og Baskavinafélagsins á Íslandi verða haldnir þann 28. júlí klukkan 16:30 í Dalbæ á Snæfjallaströnd. Dúó Atlantica skipa Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari og munu þau flytja þjóðlög á basknesku, spænsku og íslensku sem og sönglög eftir eitt ástkærasta tónskáld Íslendinga, Sigvalda Kaldalóns, sem gegndi einmitt læknisstörfum á Snæfjallaströnd.
Dúó Atlantica er þekkt fyrir að skapa mikla nánd við áhorfendur, innlifun, frumlegt efnisval, heillandi framkomu, tilfinninganæma túlkun og áhugaverðar kynningar, sem færa hlustendur inn í heim hvers lags fyrir sig. Guðrún og Javier komu fyrst fram saman árið 2002 í Guildhall School of Music and Drama í London, þaðan sem þau luku bæði mastersgráðum í tónlist. Síðan þá hafa þau komið reglulega fram í fjölmörgum tónleikasölum og á tónlistarhátíðum víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum og Afríku.
Ólafur Jóhann Engilbertsson sagði blaðamanni BB að staðarvalið sé ekki af tilviljun háð. „Sigvaldi Kaldalóns samdi mörg sín vinsælustu á þessu svæði frá 1910 til 1921 þannig að þetta lagaval og efnisskrá þeirra á vel heima á þessum stað. Þau voru mjög áhugasöm um að halda þessa tónleika hérna. Baskavinafélagið kemur að þessu líka, en það félag var stofnað fyrir sex árum síðan. Francisco Javier eiginmaður Guðrúnar, er baskneskur að hluta til og gáfu þau út geisladisk með baskneskum þjóðlögum og munu þau flytja tónlist af þeirri hljómplötu.“
Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og er aðgangur er ókeypis og hægt er að versla kaffiveitingar á staðnum.
Aron Ingi
aron@bb.is