Þetta voru upphafsorð Skúla Gautasonar menningarfulltrúa Vestfjarða og umsjónarmanns listahátíðarinnar Strauma sem fram fer á Flateyri þessa dagana. Skúli lét þessi orð falla við opnun hátíðarinnar en hún fór fram í Tankinum fyrir neðan Sólbakka. Rannveig Jónsdóttir og Heiðrún Viktorsdóttir sýna þar verk sín sem eru annarsvegar videóinnsetning og hinsvegar myndverk með tónum og undirspili Villa Valla. Hvoru tveggja mjög áhugaverð verk.
„Upphaflega hugmyndin var að styrkja listamenn af vestfirskum ættum til að koma heim og sýna heimafólki hvað viðkomandi hefði verið að fást við,“ segir Skúli í samtali við BB. „Svo lögðum við þetta í hendurnar á listafólkinu sem valdist í verkefnið og það þróaðist þannig að úr varð þessi listahátíð. Þau unnu öll að verkefnunum á sama tíma og komu öll að verkefnunum hjá hvoru öðru. Til dæmis eru Rannveig og Heiðrún hérna saman með innsetningar. Það var líka uppleggið með verkefninu að listamennirnir kynnist hver öðrum og vonandi verður það til vináttu sem helst ævilangt,“ segir umsjónarmaðurinn.
Í gær var haldið barnanámskeið í grunnskólanum og þar mættu 20 börn til að nema í leiklist, tónlist og myndlist. Fjöldinn má teljast nokkuð góður þar sem aðeins 16 börn á grunnskólaaldri búa að staðaldri á Flateyri. Afrakstur námskeiðsins verður sýndur á morgun í listamannaspjallinu og þar kemur einnig kona að nafni Anna Höstman en hún hefur dvalið á Vestfjörðum við að semja óperu. „Þannig hefur bæst utan á þetta,“ segir Skúli. „Ólöf Dómhildur kom líka inn með tveimur af nýju íbúum Ísafjarðarbæjar og Anna Höstman kemur í spjallið á morgun svo þetta er búið að vinda aðeins upp á sig.“
Sýning Rannveigar og Heiðrúnar er opin í Tanknum alla helgina en rýmið í honum er afar hentugt til sýningahalds og gaman að koma á þessar fornu slóðir hvalveiðimanna. BB náði tali af Júlíusi Þorfinns, syni fjallsins eins og hann sagði sjálfur, en Þorfinnur er einkennisfjall Önundarfjarðar. Júlíus á Tankinn með Þórunni konu sinni og Karli Hjálmarssyni. Ýmsar getgátur hafa verið uppi um hvað eigi að vera í Tanknum og Júlíus svarar því til að: „Það er ekki ákveðið og við bara ferðumst með og Tankurinn ræður eiginlega för,“ segir eigandinn. „Svo sjáum við bara til hvað verður. Augljóslega er þetta frábært rými fyrir allskonar viðburði, sýningar, skemmtanir og veislur eins og við höfum séð,“ segir hann. Fyrir nokkrum vikum var brúðkaupsveisla haldin í þessu tanki og það er ákaflega gaman að koma inn í hann. Dagskrá Strauma heldur áfram í kvöld með leiksýningu í Félagsheimilinu á Flateyri og bargiski á Vagninum, svo rekur hver viðburðurinn annan á morgun. Á myndunum má sjá barnanámskeiðið og opnunina í Tankinum í dag.
Sæbjörg
bb@bb.is