Skemmtanir fóru vel fram en töluvert var keyrt á lömb

Lömbin sækja í að kúra í vegköntunum. Það getur orðið þeim að aldurtila.

Lögreglan á Vestfjörðum hefur sent frá sér tilkynningu til að minna eigendur sauðfjár á að reyna með öllum ráðum að tryggja að fé sé ekki við eða á vegum. Sömuleiðis er rétt að minna ökumenn á að vera vel á varðbergi gagnvart þessu en kindurnar sækja töluvert í að liggja við vegi á nóttunni. Nokkuð hefur verið um það að ekið hafi verið á lambfé í umdæminu.

Alls voru 9 ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í síðastliðinni viku. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu. Einn ökumaður var kærður fyrir ölvun við akstur. Sá var stöðvaður í Strandasýslu um miðjan dag þann 26. júní. Einn aðili gisti fangageymslu lögreglunnar um helgina, en sá fékk ókeypis hótel hjá Lögreglunni á Patreksfirði. Þá voru skráningarnúmer tekin af sex ökutækjum í vikunni. Annars vegar var ástæðan vangoldin tryggingargjöld og hinsvegar vanræksla á að færa viðkomandi ökutæki til lögbundinnar skoðunar.

Tilkynnt var um fjögur umferðaróhöpp í síðustu viku. Meiðsl á ökumönnum og farþegum voru ekki teljandi en töluvert tjón á ökutækjum. Skemmtanahald gekk þó almennt vel fyrir sig enda allir góðir á bæjarhátíðunum sem nú eru haldnar víða.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA