Háskólasetrið á Vestfjörðum fékk fyrr á þessu ári stuðning frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir nýrri námsleið í sjávarbyggðafræði í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Vegna tímaskorts var ekki mögulegt að fá nógu marga nemendur í nýja meistaranámið og hefur því verið ákveðið að fresta því um eitt ár.
Í tilkynningu frá Háskólasetrinu segir að námið hafi fengið jákvæð viðbrögð og fjöldi fyrirspurna borist en ásættanlegur lágmarksfjöldi náðist ekki. Námið mun þess vegna hefjast haustið 2019 og tíminn þangað til verður nýttur til þess að auglýsa og undirbúa námsleiðina af fullum krafti.
Staða fagstjóra fyrir sjávarbyggðafræðina var einnig auglýst í mars síðastliðnum. Tólf sóttu um og þar af sex með doktorspróf. Ákveðið var að ráða ekki í stöðuna að svo stöddu. Stjórn hefur hinsvegar heimilað að ráða í tímabundna stöðu verkefnastjóra meistaranáms frá hausti 2018 en leggur til að endurauglýsa stöðu fagstjóra að ári.
Þótt námsleiðin frestist um ár verður þó umtalsverð fjölgun námsmanna í Háskólasetrinu í haust, en 25 manns munu hefja nám í Haf- og strandsvæðastjórnun og telst sú aðsókn mjög góð. Auk þess fer af stað í haust nýtt meistaranám hjá Háskólasetrinu í samstarfi við SIT, sem er lítill Háskóli í Vermont, þar sem von er á um 10 nemendum til Ísafjarðar á haustmisseri. Námsleiðin heitir á ensku Climate Change and Global Sustainability.
Ísabella
isabellaosk22@gmail.com